Helgarsprokið 24. janúar 1999

24. tbl. 3. árg.

Það hefur sjaldan verið minni stöðugleiki í íslensku efnahagslífi. Undanfarin ár hafa þvert á móti verið vaxtarskeið, eitt það lengsta í lýðveldissögunni. Atvinnulífið, starfsemi einstaklinga og fyrirtækjanna frjálsra samtaka eistaklinganna, hefur verið með fjörugasta móti. Stöðnunin hefur verið rofin. Hagnaður fyrirtækja hefur vaxið og laun einstaklinganna sem þar starfa hafa hækkað meira en dæmi eru um frá þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Atvinnuleysi er ekki lengur stöðugt áhyggjuefni heldur er víða skortur á fólki. Vafalaust má skýra þennan vöxt með ýmsu móti. Ein veigamikil ástæða er þó án efa að hið opinbera hefur hægt á útþenslu sinni síðustu árin. Einstaklingar og fyrirtæki halda nú stærri hluta af sjálfsaflafé sínu. Ýmis starfsemi ríkisins hefur og verið seld einkaaðilum þótt enn megi gera stórátak í þeim efnum.

Útgjöld ríkis og sveitarfélaga til einstakra mála eru oft réttilega gagnrýnd. Þannig þykir mörgum sem stuðningur ríkisins við íslenskan landbúnað hafi keyrt úr hófi fram. Þetta er hárrétt enda er þessi stuðningur talinn vera um 16 milljarðar króna þegar vernd gegn innflutningi er metin til fjár. Þetta eru um 60 þúsund krónur á hvern landsmann á hverju ári. Þessar 60 þúsund krónur eru settar í óarðbæran atvinnurekstur en ef til vill er hann einmitt óarðbær vegna ríkisstyrkjanna. Það vill nefnilega oft gleymast að þegar hið opinbera tekur til sín fé og ver því til ákveðinna verkefna er það ekki aðeins að innheimta skatt. Það er einnig að ryðjast inn á ákveðin svið í krafti skattfjár og koma í veg fyrir að framtak og útsjónarsemi einstaklinganna fái að njóta sín. Þetta á ekki aðeins við um landbúnaðinn. Svo dæmi sé tekið má nefna að íslenskir skólar eru ekki aðeins reknir fyrir skattfé heldur er það ríkið sjálft sem rekur þá.

Þegar þessar 60 þúsund krónur eru teknar úr vösum skattgreiðenda til styrktar landbúnaði er einnig komið í veg fyrir að þær séu nýttar til annarra hluta hvort sem það er til kaupa á aðgöngumiðum að leiksýningum, til fjárfestinga í atvinnurekstri með beinum hlutafjárkaupum eða óbeinni þátttöku með milligöngu fjármálastofnanna eða hreinlega til stofnunar nýrra fyrirtækja.Á síðustu árum hefur almenningur einmitt farið oftar í leikhús en áður og tekið aukinn þátt í atvinnurekstri með hlutafjárkaupum og stofnun nýrra fyrirtækja. Þetta hefði hann ekki getað ef hið opinbera hefði hrifsað hverja viðbótarkrónu í launaumslaginu til sín. Með öðrum orðum sést ekki nema hluti af þeim skaða sem hið opinbera veldur með skattlagningu eða öðrum afskiptum sínum. Það sést í hvað skattfénu er eytt en ekki hvað hin ósýnilega hönd markaðarins hefði gert við féð. Það sést ekki hvaða ný atvinnutækifæri hefðu orðið til fyrir féð. Hið sama má segja þegar ríkið hleypur til og setur lög og reglur um hvert smáatriðið í samskiptum manna. Um leið kemur það í veg fyrir að nýjar og liprari samskiptavenjur geti þróast.

Í dag eru tvö ár frá því Vef-Þjóðviljinn hóf göngu sína. Hann hefur komið út á hverjum degi frá 24. janúar 1997. Öll vinna við útgáfuna sjálfa er sjálfboðavinna. Kostnaður sem til fellur við útgáfuna og kynningu á henni er greiddur með frjálsum framlögum. Ritstjórn Vef-Þjóðviljans vill þakka þeim sem styrkt hafa útgáfuna með slíkum framlögum og ekki síður þeim sem hafa lagt henni lið með öðrum hætti. Að sjálfsögðu er svo nýju stuðningsfólki alltaf tekið fagnandi. Þá vill ritstjórnin þakka þeim stóra og ört vaxandi hópi fólks sem les Vef-Þjóðviljann. Margir hafa sent okkur athugasemdir og góðar hugmyndir reglulega allt frá fyrstu dögum útgáfunnar. Þær eru alltaf vel þegnar.