Laugardagur 23. janúar 1999

23. tbl. 3. árg.

Ógnarstjórnin í Beijing heldur áfram þeirri iðju sinni að ofsækja þá Kínverja sem eru henni ósammála um hvernig stjórnarhættir ættu að vera á meginlandi Kína. Í orði kveðnu segist þessi ríkisstjórn hlynnt nútíma upplýsingatækni og talar um að Kína eigi að vera framarlega á því sviði. Hún vill hins vegar ekki skilja að eigi upplýsingatæknin að hafa einhverja þýðingu verður almenningur að fá að nýta hana til að fjalla um þau mál sem honum þykir þurfa. Margítrekað hefur þessi ríkisstjórn ráðist gegn borgurum sem reynt hafa að nota upplýsingatæknina til að ræða sín í milli um breytingar á stjórnarfari á meginlandi Kína. Nýjasta dæmið er frá því fyrr í þessari viku þegar hún dæmdi ungan mann í tveggja ára fangelsi fyrir slíkan „glæp“.

Þessi ofbeldisverk stjórnarinnar hafa farið vaxandi á síðustu mánuðum. Stafar það meðal annars af því að hinn 4.júní næstkomandi eru tíu ár liðin frá því þessi ríkisstjórn lét drepa þúsundir almennra borgara á Torgi hins himneska friðar og hún hefur áhyggjur af því að fólk muni nota tækifærið til að herða á kröfum um aukið lýðræði. Hingað til hafa stjórnvöld á Vesturlöndum látið þessa slæmu þróun sig litlu varða, en nú heyrast raddir í fulltrúadeild Bandaríkjanna um að mæta verði þessu aukna ofbeldi Kínastjórnar af hörku.

Stjórnarherrarnir í Beijing óttast almenningsálit í öðrum löndum vegna þess að erlent fjármagn og viðskipti við útlönd skipta miklu máli fyrir bættan efnahag í landinu. Þar sem menn fjárfesta að öðru jöfnu síður í ríkjum sem búa við ógnarstjórn en í lýðræðis- og réttarríkjum getur aukin umræða erlendis og þrýstingur þaðan fækkað mannréttindabrotum í Kína og ýtt undir lýðræðisþróun. Fjölmiðlar á Íslandi geta haft jákvæð áhrif á ástandið í Kína með því að vekja athygli á því og stjórnvöld hér geta einnig haft jákvæð áhrif með því að halda kurteisissamskiptum við byltingarstjórnina á meginlandi Kína í lágmarki en horfa þess í stað í auknum mæli til lýðræðislega kjörinnar stjórnar Kínverja í Taívan.

Alfreð Þorsteinsson, sem hampaði næstneðsta sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík, telur þann árangur til marks um að fólk vilji ekki missa hann úr sveitarstjórnarmálum. Jú, jú, einmitt.