Föstudagur 22. janúar 1999

22. tbl. 3. árg.

Ríkið er skrýtið fyrirbæri og það gerir eitt og annað sem fæstum öðrum dytti í hug, eins og t.d. að taka fé af fólki án samþykkis þess til hinna ólíklegustu verkefna sem fólkið kærir sig ekkert um. Á Netinu fer nú sem eldur í sinu ágætt bréf sem bendir á þessa staðreynd um hið furðulega ríki.

Fyrir utan að taka fé af fólki til óskiljanlegra, óþarfra og jafnvel skaðlegra verkefnasetur ríkið almenningi margar reglur sem ekki eru síður óþarfar. Svo setur ríkið líka reglur sem það fer ekki eftir sjálft. Ein reglan er um höfundarrétt, en nú hefur komið í ljós að ríkið hefur brotið eigin reglur um rétt forritaframleiðenda um árabil með því að greiða ekki fyrir hugbúnað frá þeim.

Ríkið sér þó ekki ástæðu til að bæta ráð sitt möglunarlaust, heldur notar það þessa aðstöðu til að semja við erlent fyrirtæki um að hið erlenda fyrirtæki skuli íslenska hugbúnað. Fyrirtækið íslenskar hugbúnaðinn og þá er ríkið tilbúið að hlíta eigin reglum um rétt framleiðandans til greiðslu fyrir framleiðslu sína. Slíkar þvinganir þættu varla sérstaklega hrósverðar ef einkaaðili ætti í hlut.

Ekkert lát er á útþenslu reglugerðaríkins hér á landi. Á fyrstu 14 dögum þessa árs voru gefnar út 14 nýjar reglugerðir eða ein á dag. Reglugerðirnar eru auðvitað ekki einu stjórnvaldsfyrirmælin, sem gefin hafa verið út á fyrstu 14 dögum ársins, heldur voru þau alls 41. Þar af eru 19 auglýsingar, flestar vegna gjaldtöku opinberra aðila, 7 gjaldskrár vegna þjónustugjalda og ein skipulagsskrá vegna sjálfseignarstofnunar.

Þessi fjöldi stjórnvaldsfyrirmæla virðist í fljótu bragði vera svipaður og á undanförnum árum. Ekki liggur enn fyrir efnisyfirlit B-deildar Stjórnartíðinda fyrir árið 1998 en ætla má að þar hafi alls verið birt milli 800 og 900 stjórnvaldsfyrirmæli. Árið 1997 voru stjórnvaldsfyrirmælin í B-deild rétt innan við 800 og eru þá meðtaldar allar reglugerðir, reglur, gjaldskrár, auglýsingar og skipulagsskrár, sem borgurunum ber að fara eftir.

Við þetta bætast auðvitað ný lög og breytingar á eldri lögum. Árið 1998 urðu 162 frumvörp að lögum á Alþingi en árið 1997 voru þau 150. Auk þess koma til margvíslegar reglur í tvísköttunarsamningum, fríverslunarsamningum og alþjóðlegum samningum sem Ísland á aðild að, sem áhrif hafa á líf fólksins í landinu.

Arnþrúður Karlsdóttir lenti í sjötta og neðsta sæti í prófkjöri Framsóknarflokksins í Reykjavík og tapaði þar bæði fyrir tveimur konum og m.a.s. líka Al Þorsteinssyni. En hún sagði þó borubrött: „Mér finnst ég fara nokkuð vel út úr þessu stríði við karlana.“ Já, þetta var bara stórgóður árangur.