Fimmtudagur 21. janúar 1999

21. tbl. 3. árg.

Jón Jónsson ritaði grein í Morgunblaðið í fyrradag. Þar rakti hann sögu sína af ofsóknum innheimtudeildar Ríkisútvarpsins sem fjölskylda hans hefur mátt þola undanfarin ár. Í gær skrifar Hávar Sigurjónsson svo grein í Morgunblaðið. Hávar hefur greinilega litla samúð með Jóni og telur að svona einstaklingar eigi ekkert með að brúka sig þegar „hagsmunir heildarinnar“ eru annars vegar en Hávar telur sig þess augljóslega umkominn að ákveða hverjir „hagsmunir heildarinnar“ eru. Sérstaklega þykir þó Hávari lítið til þess koma að maður sem ber nafnið Jón Jónsson skuli gerast svo djarfur að rita grein í blöðin. Gerir Hávar sérstaka athugasemd við nafn Jóns og er drjúgur með sig og telur greinilega að lesendur hljóti að taka meira mark á Hávari Sigurjónssyni en Jóni Jónssyni.

Svona í svartasta skammdeginu treystir Vef-Þjóðviljinn sér ekki til þess að geta sér til um þær ástæður sem maður með jafn fínt nafn og Hávar Sigurjónsson hefur til að veitast að fólki fyrir þá sök að bera hið vinsæla nafn Jón. En Hávar hefur fleiri kenningar í pokahorninu sem vert er að gefa gaum. Sumar þessara kenninga hafa jafnvel notið meiri vinsælda en nafnið Hávar og verið reyndar um víða veröld. Ein er sú að einkarekstur sé síst hagkvæmari en ríkisrekstur. Þessu heldur Hávar fram í pistli sínum. Enginn rökstuðningur fylgir þessari kenningu enda nægir líklega að heita Hávar eða bara eitthvað annað en Jón!

reindeer5.gif (2050 bytes)
reindeer5.gif (2050 bytes)

Nú þegar allir viðurkenndu jólasveinarnir eru farnir til fjalla er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hvers vegna sveinarnir virðast alltaf sleppa við þau ríkisafskipti sem plaga okkur hin svo mjög. Vinstri menn ættu þó ekki síður að hafa horn í síðu sveinka en  hins venjulega skattborgara. Jólasveinninn gefur til dæmis aðeins bestu börnunum gjafir en vondu börnin fá í besta falli kartöflu. Hann er því ekki beint jafnaðarmaður í sér hann Jóli.  Þessar gjafir eru líka hlunnindi sem vafalaust mætti skattleggja. Hreindýrasleðinn sem hann ferðast á virðist ekki uppfylla helstu öryggiskröfur farartækja svo sem um öryggisbelti og merkjaplötur og hefur aldrei þurft að fara í gerðarskoðun eins og Musso jepparnir hans Fjölnis. Rauð jólasveinahúfan samræmist vart helstu tilskipunum ESB um öryggishjálma, hvorki um lit, efni né höggþol. Að því ógleymdu að auðvitað væri það til samræmis við önnur afskipti ríkisins af okkur borgurunum að skattleggja hreindýrasleðann svo hressilega að sveinarnir neyddust til að taka strætó. Sleðinn fer líka ókeypis um himininn og jólasveinarnir nýta þessa „sameiginlegu“ auðlind sem himininn er án þess að greiða auðlindaskatt.

Jólasveinarnir eru svo allir karlkyns (eins og aðrir sveinar) en það gengur auðvitað ekki og til að gæta samræmis væri réttast að siga ráðherraskipaðri nefnd um aukna þátttöku kvenna  á jólasveinana. Þá heita nær allir jólasveinarnir nöfnum sem mannanafnanefnd ríkisins hefur heimild til að afmá af mönnum ef ekki vill betur til.
Einstakir sveinar hljóta að vera algjörlega óþolandi fyrir ýmsa vinstri menn. Kertasníkir er til dæmis sífellt að brenna upp kertastubba en við það myndast koldíoxíðsameindir sem vinstri menn telja nú að séu send úr neðra og þess vegna munum við innan skamms stikna í víti. Bæði neysluvenjur Bjúgnakrækis og Skyrgáms geta leitt til sjúkdóma og aukið kostnað heilbrigðiskerfisins og því hlýtur Þorgrímur Þráinsson að koma til skjalanna og helst láta banna bæði bjúgu og skyr.