Miðvikudagur 20. janúar 1999

20. tbl. 3. árg.

Hvað ætli fólk segði, ef auglýst yrði að til væru ljóð eftir kunnan kynferðisafbrotamann og nú stæði til að lesa þau og syngja við hátíðlega athöfn og væru allir velkomir meðan húsrúm leyfði? Eða að lesin yrðu ljóð erlends barnaníðings í þýðingu íslenskra skálda? Og svo myndi óperusöngkona syngja nokkur ljóð eftir nauðgara við undirleik virtustu píanóleikara Íslands?

Ætli fólki þætti þetta ekki nokkuð grátt gaman. Eða hvað? Myndi fólk kannski setja upp umburðarlyndissvipinn og segjast „gera greinarmun á ljóðunum og skáldunum sjálfum“? Vefþjóðviljinn gerir ekki ráð fyrir því. Hann býst við að flestir hefðu hina megnustu skömm á því uppátæki að efna til opinbers upplestrar á ljóðmælum slíkra höfunda. En þetta er auðvitað bundið við að höfundarnir séu stórglæpamenn eins og hér var lýst. Hafi þeir hins vegar einungis látið myrða milljónir manna og pynta enn fleiri, kynni öðru máli að gegna. Á dögunum var að minnsta kosti efnt til hátíðlegs upplestrar á ljóðum eftir ekki minni mann en Mao Tse Tung!

mao4.gif (10576 bytes)
mao4.gif (10576 bytes)

Ætli enginn af aðstandendum þeirrar samkomu og enginn af fréttamönnunum sem hátíðlegir sögðu frá smekklegheitunum hafi minnstu hugmynd um stjórnartíð þessa Maos? Mao Tse Tung ríkti sem æðsti valdamaður á meginlandi Kína árin 1949-1976. Á þessum árum var ógnarstjórn í Kína og milljónir manna týndu lífi af völdum stjórnvalda. Mao beitti ýmsum aðferðum við að treysta völd sín og vinna á andstæðingum sínum. Fangelsun og aftökur voru notuð þegar honum þótti þurfa og lét hann oft hendur standa fram úr ermum. Árið 1951 hóf skáldið Mao til dæmis eina herferðina gegn þeim sem hann kallaði gagnbyltingarmenn. Fyrstu sex mánuði þess árs voru 22.500 „gagnbyltingarmenn“ teknir af lífi – í mánuði hverjum. Nú er talið að á fyrstu valdaárum Maos hafi um þrjár milljónir kínverskra borgara fallið í valinn í baráttunni gegn gagnbyltingarmönnunum. Og uppi á Íslandi koma menn saman. Ekki til að ræða um ógnarstjórn Maos. Ónei, til þess að lesa ljóð eftir hann.

Lýðskrumið á Alþingi vegna væntanlegra kosninga er komið á fulla ferð. Ágúst Einarsson og Gísli S. Einarsson fluttu nýlega frumvarp til laga um breytingar á hegningarlögum sem gerir ráð fyrir að hámarksrefsing við fíkniefnabrotum verði hækkuð í 12 ár og sett verði 2 ára lágmarksrefsing við slíkum brotum. Ef svo ólíklega vildi til að þessi sýndarmennskutillaga yrði samþykkt væri áhætta þeirra sem flytja þessi efni inn og selja þau aukin verulega. Ekki er ólíklegt að verð efnanna myndi hækka við þessa auknu áhættu og hagnaðarvonin einnig. Innflutningur mun því halda áfram enda sýnir reynslan að jafnvel þar sem dauðarefsing liggur við fíkniefnabrotum er mikil verslun með fíkniefni. En þyngri refsingar og þar með hærra verð fíkniefna hafa fleiri afleiðingar. Þeir sem eru svo ógæfusamir að ánetjast þessum efnum þyrftu að fremja fleiri auðgunarbrot, rán, innbrot og ávísanafals, til að fjármagna neysluna. Fleiri saklausir borgarar yrðu fórnarlömb slíkra brota.

Ekki er því annað að sjá en frumvarp Ágústs Einarssonar og Gísla Einarssonar miði að því að auka hagnaðarvonina í fíkniefnasölu og fjölga fjármögnunarafbrotum. Því má heldur ekki gleyma að þegar refsingar við fíkniefnabrotum eru orðnar sambærilegar við refsingar við ofbeldisglæpum eru lögreglumenn og vitni að fíkniefnabrotum sett í aukna hættu. Það hljóta allir að sjá hvaða hættu það býður heim að það geti borgað sig fyrir fíkniefnasala að hóta líkamsmeiðingum eða jafnvel fremja morð til að komast undan réttvísinni vegna fíkniefnabrota.