Miðvikudagur 27. janúar 1999

27. tbl. 3. árg.

Í gærkvöldi boðaði Mörður Árnason þátttakandi í prófkjöri samfylkingarinnar í „hólfi“ Alþýðuflokksins til fundar á Sólon þar sem hann atti kappi við Hannes Hólmstein Gissurarson. Fundurinn var eins og fundir eiga að vera, stuttur og fjörugur. Mörður hóf fundinn á því að fagna kosningasigrum jafnaðarmanna í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi undanfarin ár en gat svo aðspurður ekki nefnt nein dæmi um lofsverðar breytingar sem ríkisstjórnir þessara jafnaðarmanna hefðu staðið fyrir frá því þær tóku við. Mörður virtist til dæmis alveg hafa gleymt því að Tony Blair tók upp skólagjöld. Hannes lagði áherslu á að frjálslyndir jafnaðarmenn á öllum aldri sem vildu styðja þá þá utanríkisstefnu sem Stefán Jóhann Stefánsson markaði Alþýðuflokknum, þá frelsisstefnu í viðskiptum sem Gylfi Þ. Gíslason hefði staðið að á viðreisnarárunum, baráttu Vilmundar Gylfasonar gegn spillingu í stjórnkerfinu og töffaraskap og oft á tíðum frjálslyndan boðskap Jóns Baldvins Hannibalssonar ættu í raun þann kost vænstan að kjósa Sjálfstæðisflokkinn í vor. Sjálfstæðisflokkurinn væri eini flokkurinn sem varðveitti þessi stefnumál. Samfylkingin hefði ekki og gæti ekki mætt óskum þessara frjálslyndu jafnaðarmanna á meðan fyrrverandi Þjóðviljamennirnir og allaballarnir Össur og Mörður væru leiðtogar Alþýðuflokksins í Reykjavík.

Því hefur stundum verið haldið fram að ekki sé hjá því komist þegar tveir vinstri menn hittast verði til að minnsta kosti þrjár fylkingar. Þroski vinstri manna virðist gjarna svo takmarkaður að eina leiðin til að fá þá til samvinnu er að neyða þá til hennar. Þess vegna telja vinstri menn líklega rétt að skylda menn til sem mestrar samvinnu með mikilli ríkisforsjá, skylduaðild að verkalýðsfélögum og lífeyrissjóðum, skylduáskrift að Ríkisútvarpinu og fleiri nauðungum sem þeir eru baráttumenn fyrir.

Í allri sameiningarorgíunni undanfarið hafa ekki aðeins þingflokkar Kvennalistans og Alþýðubandalagsins tvístrast heldur hefur kvarnast nokkuð úr Alþýðuflokknum. Um helgina var fyrrverandi formaður Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur Gunnar Ingi Gunnarsson kjörinn varaformaður í flokki Sverris Hermannssonar. Þá var svonefndur „eðalkrati“ Grétar Mar skipstjóri af Suðurnesjum kjörinn í miðstjórn Frjálslynda flokksins. Sameiningaralgleymið hefur einnig sundrað fyrrum samherjum innan verkalýðshreyfingarinnar. Margir framagosar innan stéttarfélaga ríkisstarfsmanna ætla að fylgja melónuflokki Ögmundar og Steingríms en ýmsar símalínur á kontór ASÍ eru sjálfsagt uppteknar vegna prófkjörs samfylkingarinnar þessa dagana þótt þar séu einnig melónumenn.

Vef-Þjóðviljinn minnir á að hann er gefinn út með frjálsri samvinnu einstaklinga. Útgáfan og kynning á henni er fjármögnuð með frjálsum framlögum.