Helgarsprokið 13. desember 1998

347. tbl. 2. árg.

Það var heldur vandræðaleg yfirlýsingin frá 105 af 150 prófessorum við Háskóla Íslands í Morgunblaðinu í gær. Þrátt fyrir að blaðið hefði slegið plagginu upp á baksíðu undir heitinu „áskorun“, kemur í ljós við lestur þess að einungis er um að ræða eins konar fréttaskýringu. Þannig upplýsa prófessorarnir alþjóð um jafn augljósar staðreyndir og að Hæstiréttur hafi nýlega fellt dóm þess efnis að tiltekið lagaákvæði samrýmist ekki jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar og að Alþingi beri að leiðrétta þetta ósamræmi.

Hins vegar er nokkrar villur að finna í yfirlýsingu prófessoranna, sem ekki er með nokkru móti hægt að túlka þannig að vit fáist í. Til dæmis eru prófessorarnir á því að Alþingi beri, vegna fyrrnefnds dóms Hæstaréttar, að „…breyta þessum lögum á þann veg, … að ákvæði laga um sameign íslensku þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum sé virt.“ Við þessa yfirlýsingu verður að gera athugasemdir. Í fyrsta lagi var í títtnefndum dómi Hæstaréttar fjallað um hvort fyrrnefnd ákvæði um úthlutun veiðileyfa stæðust gagnvart jafnræðisákvæðum stjórnarskrárinnar. Dómurinn fjallaði ekki um hvort úthlutun veiðileyfa stæðust gagnvart einhverjum öðrum réttarreglum. Í dómnum er þannig hvergi minnst á að ákvæði um að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar leiði til þess að reglum um úthlutun veiðileyfa verði að breyta. Í öðru lagi er rétt að minna á að ákvæðið um sameign þjóðarinnar er í sömu lögum og prófessorarnir hvetja til breytinga á. Samt virðast þeir líta á þetta sameignarákvæði sem einhvers konar æðri réttarheimild sem laga eigi önnur lagaákvæði að. Í þriðja lagi er alls ekki sjálfgefið að títtnefnt sameignarákvæði sé yfir höfuð ósamrýmanlegt ákvæðum um úthlutun veiðileyfa og veiðiheimilda. Slíka niðurstöðu er a.m.k. ekki að finna í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar.

Hinar neyðarlegu villur í yfirlýsingu prófessoranna bera allar að sama brunni: Þeir virðast ekki gera sér grein fyrir því að stjórnarskrá lýðveldisins er æðri almennum lögum hér á landi. Þess vegna ber að breyta lögum sem ekki samrýmast henni. Ákvæðið um sameign þjóðarinnar á fiskimiðum er hins vegar ekki að finna í stjórnarskránni og því er engin stjórnskipuleg nauðsyn á að breyta öðrum lagagreinum vegna þessa ákvæðis. Að auki liggur ekkert fyrir um að ákvæði íslenskra laga samrýmist ekki ágætlega hinu almennt orðaða sameignarákvæði.

Ljóst er að prófessorarnir við Háskóla Íslands telja það mun mikilvægara og merkilegra á ýmsan hátt að þeir skrifi undir plagg en einhverjir almennir borgarar. Gott og vel. Gefum okkur nú að það sé rétt. Gefum okkur til dæmis að prófessor í læknadeild viti meira um málið en Jón og Gunna. Reynum að líta framhjá þeim menntahroka sem yfirlýsingin ber með sér. Þá er það mjög alvarlegt að 105 af 150 prófessorum við Háskóla Íslands skuli ekki gera sér grein fyrir grundvallaratriðum íslenskrar stjórnskipunar í ljósi þeirrar einokunar sem þessi ríkisstofnun hefur á háskólamenntun á flestum sviðum hér á landi. Í „skýringum“ með yfirlýsingunni kemur fram að ástæða þess að 45 prófessorar hafi ekki skrifað undir yfirlýsinguna sé einkum sú að þeir hafi ekki verið í vinnunni sinni þar sem kennslu sé lokið á haustmisseri!  Einkum séu margir prófessoranna erlendis! Það er með öðrum orðum ekki hægt að ná í þriðjung prófessora við HÍ á miðju próftímabili! Jafnvel vinnufélagar þeirra geta ekki komið boðum til þeirra! Í ljósi hinnar klénu lagaþekkingar sem plagg prófessoranna ber með sér væri forvitnilegt að vita af hverju enginn af prófessorum lagadeildar sá sér fært að skrifa undir plaggið. Einnig vekur athygli að eini prófessor landsins í fiskihagfræði sá sér ekki fært að skrifa undir títtnefnt plagg.