Laugardagur 12. desember 1998

346. tbl. 2. árg.

Hæstiréttur Íslands gefur út dóma sína rúmlega ári eftir að þeir eru kveðnir upp. Birtast þeir á nokkur þúsund blaðsíðum í fjórum til fimm bindum og eru því seldir á allnokkru verði, 8800 kr. hver árgangur. Nema með einni undantekningu. Útgefandinn hefur ákveðið að einn hópur manna í landinu, laganemar, þurfi einungis að greiða helming þessarar upphæðar. Þetta stenst auðvitað allar jafnræðisreglur…

Um 90.000 manns eða þriðjungur þjóðarinnar skráði sig fyrir hlutabréfum í Búnaðarbankanum í vikunni sem leið. Árni Oddur Þórðarson forstöðumaður hjá Búnaðarbankanum – verðbréfum benti á það í frétt númer eitt á Stöð 2 í gærkvöldi að sennilega væri þetta heimsmet. Ríkissjónvarpið sá hins vegar ekki ástæðu til þess að segja frá því fyrr en í tíundu frétt í gærkvöldi að þriðjungur þjóðarinnar hefði farið á kreik á hlutabréfamarkaðnum á nokkrum dögum.  Árni Oddur benti jafnframt á að þessi mikla eftirspurn eftir bréfum í bankanum væri augljós skilaboð um að ríkið ætti að selja stærri hlut í bankanum.

Sjálfsagt hefði mátt selja allt hlutafé í bankanum á einu bretti og það hlýtur að koma til álita hjá ríkisstjórninni að hraða einkavæðingu bankanna þegar almenningur lýsir jafn afdráttarlausum stuðningi við einkavæðinguna í verki. Þessi fjöldi sem keypti í Búnaðarbankanum er auðvitað að sama skapi áfall fyrir forsjárhyggjuliðið á Alþingi, Jóhönnu Sigurðardóttur, Ágúst Einarsson og Margréti Frímannsdóttur, sem reyndi að spilla fyrir sölunni. Meðal annars með því að rógbera það fólk sem festi sparifé sitt í bankanum og gera viðskiptin tortryggileg.

Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemd við svonefndan skattaafslátt vegna hlutabréfakaupa þar sem afslátturinn er aðeins veittur vegna kaupa í íslenskum fyrirtækjum Telur stofnunin að afslátturinn ætti að ná til fyrirtækja á evrópska efnahagssvæðinu. Þ.e.a.s. ef menn kjósa að hafa slíkan afslátt. Vef-Þjóðviljinn hefur áður gagnrýnt að fjárfestingum manna sé stýrt með þessum hætti. Skattar eiga að vera almennir og án undantekninga en umfram allt lágir. Ríkið á hvorki að stýra neyslu eða fjárfestingum með boðum og bönnum né ívilnunum. Með því að leggja skattaafslátt vegna hlutabréfakauap og svonefndan sjómannaafslátt niður mætti til dæmis lækka tekjuskattshlutfallið úr 39 í 38%.