Á Stöð 2 í gær var rætt við þá Kristin H. Gunnarsson og sjálfan Sighvat Björgvinsson (þann sem sigraði í þýsku kosningunum á dögunum). Fréttamaður Stöðvar 2 gat þess í kynningu á þingmönnunum að Kristinn væri nú nýgenginn í Framsóknarflokkinn. Sá þá Sighvatur sér leik á borði og skaut því inn í umræðuna að hann sjálfur væri hins vegar búinn að vera í Alþýðuflokknum frá upphafi og [yrði] það áfram. Líklega á Sighvatur við eigið upphaf en ekki upphaf Alþýðuflokksins, en látum það vera. Hins vegar dregur heldur úr mætti hins snarpa skots á Kristin, þegar litið er til þess að hinn einarði garpur, Sighvatur Björgvinsson, hefur frá því hann tók við formennsku í Alþýðuflokknum séð það eitt ráð flokknum til gagns – að hann hætti að bjóða fram.
Í fyrradag var kynnt frumvarp sem breytir þeim lögum um stjórn fiskveiðar sem sett voru í tíð ríkisstjórnar Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Framsóknarflokks árið 1989 en Hæstiréttur telur að 5. grein laganna stríði gegn jafnræðisákvæði í stjórnarskránni. Sigurður Líndal lagaprófessor var inntur eftir áliti á frumvarpinu í DV í gær og sagði eftirfarandi: Eins og ég skil kvótadóminn þá tel ég frumvarpið í samræmi við hann. Það er hvergi minnst á 7. greinina í dóminum. En ég verð að segja að mér finnst umræðan um þessi mál eins og á vitfirringahæli. Rausið í honum Ágústi Einarssyni og Valdimar Jóhannessyni, sem ausa rugli yfir þjóðina, er hreinasta þjóðarskömm.
Eitt skemmtilegt dæmi um ólæknandi bannáráttu sumra manna er að á Íslandi eru sleikipinnar bannaðir. Já, gamli góði sleikibrjóstsykurinn. Þetta er vissulega lyginni líkast, en svona mun þetta þó hafa verið allar götur frá árinu 1959 þegar einhverjum kom til hugar að landsmenn væru betur settir væri þeim bannað að sleikja sykur af spýtu eða stöng. Þetta fáránlega bann ætti að vera umhugsunarefni öllum þeim sem sífellt vilja banna alla mögulega hluti, eins og tilteknar gerðir tóbaks, matvæla og svo framvegis. Og það ætti líka að vera þeim umhugsunarefni sem vilja með misháum álögum stýra neyslu annars fólks á tilteknum vörum. Þar má nefna ýmsar mat- og drykkjarvörur, en einnig hluti eins og bíla. Slík neyslustýring er ekkert nema mildari útfærsla á banni við neyslu. Það fer best á því að fólk velji sjálft, án afskipta að ofan.