Á dögunum veittu félagar í verkalýðsfélaginu Dagsbrún-Framsókn stjórn félagsins heimild til að segja kjarasamningum við Reykjavíkurborg upp. Af því tilefni fóru fréttamenn Ríkissjónvarpsins á fund Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og var hún ekki hress. Í fréttum í gærkvöldi taldi hún þetta hina mestu lögleysu og minnti á hina einstöku lögfræðiþekkingu sína með orðunum: Riftun kjarasamnings á gildistíma samningsins er auðvitað ólögleg. Sko, nú hefur Vefþjóðviljinn ekki kynnt sér stöðu málsins nákvæmlega og veit því ekki hvort borgaryfirvöld hafa vanefnt samninginn svo mjög að það heimili verkalýðsfélaginu að segja honum upp. En hitt er annað mál að, þvert á það sem Ingibjörg Sólrún heldur, þá er það einmitt samningum sem eru í gildi sem menn geta stundum rift. Þegar gildistími samningsins er úti – þá er full seint að rifta honum.
Með frumvarpi til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða sem kynnt var í gær verður öllum skráðum skipum veitt veiðileyfi. Það er sjálfsagt og eðlilegt. Kvótakerfið sér sjálft til þess að fjöldi skipa með aflaheimildir dregur ekki úr hagkvæmni við veiðar. Með breytingunni verða smábátar einnig settir á aflamark og er þá búið að hnýta flesta lausa enda í kerfinu. Þessi breyting á 5. grein laga um stjórn fiskveiða var löngu tímabær enda óeðlilegt að binda veiðileyfi við skip sem skráð voru á ákveðnu tímabili. Nú geta allir sem eiga fley keypt sér aflaheimildir. Þessi breyting breytir að sjálfsögðu engu um grundvöll kvótakerfsins sjálfs. Áfram verður byggt að frjálsum viðskiptum og séreignarrétti. Þeim grundvallarviðhorfum sem reynst hafa best í efnahagsmálum.
Vafalaust munu fylgismenn aukinnar skattheimtu og sameignarstefnu halda áfram að berjast fyrir þeim hugsjónum sínum að ríkið hrifsi aflaheimildirnar til sín og noti þær til að afla fjár í ríkissjóð. Þar munu jafnaðarmenn allra flokksbrota fara fremstir með dyggum stuðningi Morgunblaðsins. Ef marka má málflutning jafnaðarmanna á þingi vegna sölu á ríkisbönkunum verður það keppikefli að ríkið fái sem mest fyrir aflaheimildirnar þegar þær verða seldar. Almenningi (eða kennitölunum eins og Jóhanna Sigurðardóttir kallar fólk) verður því varla gefinn kostur á að kaupa aflaheimildir með áskriftarfyrirkomulagi. Ekki verður heldur hægt að selja fjársterkum aðilum aflaheimildirnar af því að þeir eiga svo mikla peninga! Eru þá fáir aðrir kostir eftir en að ríkið hefji sjálft útgerð. Þá kemur reynsla Ágústs Einarssonar kvótaeiganda til margra ára til góða. En þó er hætt við að Ágúst græði ekki jafnvel á ríkisrekstrinum og hann hefur grætt á útgerð sinni á undanförnum árum. Að minnsta kosti er vart við því að búast að hann eigi milljónir afgangs til að kaupa sér meiri áhrif á Degi-Tímanum.
Vef-Þjóðviljinn minnir á að hann er rekinn fyrir frjáls framlög. Bæði reksturinn á vefnum og kynning. Hér getur þú slegist í hópinn.