Í kjölfar dóms Hæstaréttar um synjun sjávarútvegsráðuneytisins á veiðileyfi til einstaklings hafa nokkur hundruð manns sótt um veiðileyfi og veiðiheimildir til ráðuneytisins. Vafalaust verður þessum umsóknum hafnað, a.m.k. umsóknunum um veiðiheimildirnar enda eru þær eign annarra en sjávarútvegsráðuneytisins. Í þessum hópi umsækjenda eru víst margir sem gagnrýnt hafa hið svonefnda kvótabrask. En kvótabraskið felst í því að kvóti er leigður eða seldur þeim sem treystir sér til að veiða með hagkvæmustum hætti hverju sinni. Margir þessara umsækjenda um veiðiheimildir nú hafa aldrei migið í saltan sjó og munu vísast aldrei gera. Það fyrsta sem þeir þyrftu að gera ef þeir fengju veiðiheimildir væri því að selja þær eða leigja…
Við forsetakosningar fyrir rúmum tveimur árum kom í ljós að meirihluti þjóðarinnar taldi eitthvert þeirra Ástþórs, Guðrúnar og Péturs eiga meira erindi í embætti forseta Íslands en Ólafur Ragnar Grímsson. Það ætlar raunar ekki að ganga þrautarlaust fyrir forseta Íslands að fá hreinan meirihluta í kosningum. Í síðustu viku fór fram nokkurs konar kosning meðal lesenda Vísis. Um niðurstöðuna sagði svo í frétt Vísis í gær: Nærri þrír af hverjum fjórum þeirra sem þátt tóku í atkvæðagreiðslu á Vísi telja að forseti Íslands eigi ekki að taka þátt í umræðu um þjóðmál. 74% þátttakenda svöruðu eftirfarandi spurningu neitandi: Telur þú rétt að forseti Íslands taki þátt í umræðum um þjóðmál með þeim hætti sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur gert? Atkvæðagreiðslan stóð yfir í viku og tóku 5700 manns þátt í henni. Aldrei áður hafa eins margir tekið þátt í atkvæðagreiðslu á Vísi. Einungis eitt atkvæði er talið frá hverri tölvu í atkvæðagreiðslu á Vísi.
Heilög Jóhanna fer mikinn þessa dagana gegn framvirkum samningum með kauprétt í ríkisbönkunum. Þykir henni og fleiri stjórnarandstæðingum það reginhneyksli að almenningur hagnist um nokkrar krónur á því að selja kauprétt sinn. Líklega eru stjórnmálamenn á vinstri vængnum þó hörðustu sölumenn framvirkra samninga. Fáir bjóða jafn hressilega í atkvæði landsmanna fyrir kosningar og Jóhanna Sigurðardóttir. Þar er öllum lofað öllu. En því miður er það líka á kostnað allra.