Mánudagur 14. desember 1998

348. tbl. 2. árg.

Nú hefur meirihluti fjárlaganefndar Alþingis lagt fram ýmsar breytingartillögur við fjárlagafrumvarpið. Verði þær samþykktar verður afgangur á fjárlögum næstum því enginn. Þó fagnaðarefni sé að ríkið greiðir nú niður skuldir sínar um milljarða króna, er engu að síður ástæða til að brýna þingmenn til að missa ekki stjórn á útgjöldunum við lokaafgreiðslu fjárlaganna. Í því sambandi er mikilvægt að þeir samþykki sem allra fæstar útgjaldatillögur auk þess sem þeir verða að horfa gagnrýnir á þau útgjöld sem fyrri þing hafa stofnað til.

Hér leyfir Vefþjóðviljinn sér að nefna eina hugmynd að sparnaði. Eins menn muna, rak verkalýðshreyfingin lengi sérstaka stofnun er hafði þann tilgang að kenna verkalýðnum hvernig hann ætti nú að bera sig að í stéttabaráttunni og fræða hann um það sem verkalýðsforystunni þótti máli skipta. Þegar síðasta vinstri stjórn tók svo við völdum datt mönnum einfaldlega í hug það snjallræði að láta ríkið taka að sér að greiða kostnaðinn við þessa starfsemi! Meðal hennar fyrstu verka var að fá samþykkt sérstök lög, sem nefnast lög um Félagsmálaskóla alþýðu og eru nr. 60/1989. Í 1. grein þessara laga segir að skólinn starfi „á vegum Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja“ og „Menningar- og fræðslusamband alþýðu (…) fari með málefni hans.“

Hlutverk skólans er samkvæmt 2. gr. „að mennta fólk úr samtökum launafólks með það fyrir augum að efla sjálfstraust þess, þroska og hæfni til þess að vinna að bættum lífskjörum verkalýðsstéttarinnar“ og skólinn skal samkvæmt 3. gr. meðal annars „veita fræðslu um hina íslensku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og viðfangsefni hennar, sögu, skipulag, starfshætti og stefnu“. Vefþjóðviljinn stingur upp á að ríkið hætti að reka þennan félagsmálaskóla fyrir verkalýðshreyfinguna. Vilji hún fræða menn sérstaklega um „hina íslensku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og viðfangsefni hennar, sögu, skipulag, starfshætti og stefnu“ – þá getur hún gert það á eigin kostnað (og ekki fyrir nauðungargjöld félagsmanna).

Vefþjóðviljinn treystir því að fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, taki þessari uppástungu vel, því að eflaust man Geir vel hvaða þingmaður barðist á sínum tíma harðast gegn því að umrædd lög um „Félagsmálaskóla alþýðu“ voru sett.