Mánudagur 30. nóvember 1998

334. tbl. 2. árg.

Iðnaðarnjósnir og hugverkastuldur eru greinilega vaxandi vandamál í heiminum. Menn hafa reyndar lengi stælt hönnun annarra og apað eftir þeim ýmsar hugmyndir en nú hafa fantar gengið svo langt að stela í heilu lagi stjórnmálahugmyndum Bárðar Halldórssonar. Eins og gefur að skilja telur Bárður illa farið með sig og mun hann nú hafa ákveðið að krefjast þess að lögbann verði lagt við því að aðrir menn berjist fyrir sömu hugmyndum og hann. Hvort sem sýslumaður tekur nú vel í það erindi eða ekki, má telja víst að þeir sem nú eigna sér hugvit Bárðar munu fá makleg málagjöld þegar þar að kemur. Stefnuskrá þessa Bárðar og hans manna (allra þrjátíu) er nefnilega þess eðlis að það ætti að vera hverjum manni næg refsing að vera kenndur við hana.

Í þessu samhengi rifjast eflaust upp fyrir mörgum lesendum Vefþjóðviljans, að fyrr á öldinni varð biskup einn fyrir því óhappi að stolið var ferðakistu hans og voru í henni hreinritaðar ræður hans frá liðnum áratugum. Um það var á þeim tíma ort:

„Ferðakistan farin, kristnir bræður!
því forði sá, sem öllu ræður.“
– Við fylgd sína átti frómur biskup tal. –
„Ég missti í henni hundrað ræður.
Guð hjálpi þeim sem stal!“

Á ráðstefnu um kvótakerfið sem haldin var fyrir rúmri viku flutti Julian Morris hagfræðingur hjá umhverfismáladeild Institute of Economic Affairs erindi sem nefndist Law, Property Rights and the Environment. Í erindinu kom m.a. fram gagnrýni á svonefnda varúðarreglu sem rutt hefur sér til rúms í umhverfismálum. En varúðarreglan gerir ráð fyrir að menn megi ekki gera nokkurn skapaðan hlut nema vera þess vissir að hann hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið. Virðist þá gilda einu hvort framkvæmdin komi manninum til góða enda er hann orðinn afgangsstærð þegar „hagsmunir“ og „réttindi“ umhverfisins eru annars vegar. Þessi varúðarregla felur einnig í sér öfuga sönnunarbyrði sem Morris gagnrýnir. Þeir sem standa að framkvæmdum verða alltaf að sanna að þeir muni ekki valda varanlegum skaða sem í mörgun tilfellum er afar erfitt eða ómögulegt. Sumt er einfaldlega ekki hægt að færa í fyrra horf.

Þeir sem einkum boða varúðarregluna eru þeir sem tekið hafa sér heitið „náttúruverndarsinnar“. Náttúran er þó langöflugasti byltingarsinninn í umhverfinu og flestar þær breytingar sem náttúran sjálf veldur eru óafturkræfar. Vafalaust hafa „ósnortin víðerni“ horfið undir það hraun sem hér hefur brunnið fyrr á öldum og jöklar hafa hopað og skriðið fram án þess að maðurinn hafi komið nærri. Styrkur gróðurhúsalofttegunda hefur einnig rokkað upp og niður um árþúsund án þess að manninum verði kennt um. Flóð hafa skollið á ströndum og fært stór landssvæði á kaf og umbylt gróðurfari og landslagi. Svo nokkur uppátæki náttúrunnar sjálfrar séu nefnd. Hugtakið „ósnortið víðerni“ gerir ekki ráð fyrir manninum sem hluta af náttúrunni heldur sem aðskotadýri sem gerir ekkert nema usla. Þess verður sjálfsagt stutt að bíða að „náttúruverndarsinnar“ láti afskipti mannsins af veirum og bakteríum sig varða enda hefur maðurinn útrýmt ýmsum „ósnortnum veirum“ til að gera sér lífið bærilegra. Rétt eins og hann hefur búið sér til uppistöðulón til rafmagnsframleiðslu og veitt hvali sér til matar.