Helgarsprokið 29. nóvember 1998

333. tbl. 2. árg.

Fréttamat fjölmiðla vekur oft furðu. Bæði er algengt að stórmál sé gert úr því sem litlu skiptir og einnig kemur æði oft fyrir að fréttamenn spyrja ekki þeirra spurninga sem virðast augljósar og nauðsynlegar til að botn fáist í mál. Það moldviðri sem þyrlað hefur verið upp í kringum meint framboð Sverris Hermannssonar og Bárðar Halldórssonar er gott dæmi um hvort tveggja og gætu fréttamenn líklega lært töluvert af því að skoða fréttaflutning síðustu mánaða af þessum tveimur mönnum og því máli sem þeir segjast berjast fyrir.

Eftir mánaðalangar fæðingarhríðir, sem almenningur hefur nánast neyðst til að fylgjast með í flestum fréttatímum ljósvakamiðla og tölublöðum dagblaða, hefur komið í ljós að fréttin var engin. Þetta vissu reyndar margir fyrir, því það var löngu komið í ljós að þessir tveir menn voru ekki með neina fjöldahreyfingu á bak við sig, en af einhverjum undarlegum ástæðum fengu þeir inni í fréttum hvenær sem þeim sýndist. Sverrir, sem hefur komið fram í hverjum fréttatímanum af öðrum og lýst mikilfeng sínum og gert lítið úr öðrum, neyddist til þess í síðustu viku að halda loks stofnfund svokallaðs stjórnmálaflokks síns. „Flokkurinn“ var eftir allt fárið stofnaður á lokuðum 4 manna fundi taldi eigandi flokksins (eini raunverulegi flokkseigandi landsins) að fréttamönnum kæmi sem fæst við sem á þeim fundi var gert. Þetta var niðurstaða alls fjölmiðlafársins í kringum þennan háværa og stóryrta mann. Fjögurra manna lokaður fundur!

Annar vaskur maður, Bárður Halldórsson, stofnaði sinn flokk í gær. Eftir mikið sviðsljós í fréttatímum og á síðum dagblaða með alls kyns yfirlýsingum og auglýsingum gat hann með erfiðismunum dregið rúmlega 30 manns á stofnfund sinn. Þrjátíu manns! Á síðu tvö í Morgunblaðinu í dag er þetta aðalfréttin og segir í stríðsletursfyrirsögn að Bárður hafi verið kjörinn formaður flokksins og að „yfir þrjátíu manns“ hafi sótt fundinn. Eftir allar þær ókeypis auglýsingar sem fjölmiðlarnir höfðu útvegað honum í öllum fréttatímum vikunnar fékk hann ekki nema allra nánustu vini og fjölskyldu til að mæta.

Það skyldi þó ekki vera að þessir tveir misheppnuðu fundir segi nokkuð til um réttmæti þess fyrir fjölmiðla að hafa eytt öllum þeim tíma sem raun ber vitni í þessa tvo menn og þeirra lítilfjörlega málstað. Ef til vill kennir þetta fjölmiðlum að þreifa aðeins á púlsinum í mannlífinu áður en rokið er til og reynt að gera fréttir úr engu. Það er augljóst að þessir menn og það mál sem þeir hafa barist fyrir, þ.e. að hækka skatta landsmanna, eru ekki áhugamál þjóðarinnar númer eitt eins og ætla mætti af fréttaflutningnum. Og það er raunar athyglisvert að þessir fundir eru annað tækifærið á stuttum tíma sem þjóðin hefur haft til að sýna hug sinn gagnvart auðlindaskatti. Í bæði skiptin hefur honum verið hafnað.

Hér í upphafi var líka nefnt að oft er sjálfsagðra spurninga ekki spurt og svör viðmælenda, sem oft á tíðum eru hreint rugl, eru látin góð og gild. Mýmörg dæmi mætti nefna, en eitt augljóst var í vikunni þegar Sverrir Hermannsson var spurður hvers vegna hann léti ekki kjósa á milli sín og Bárðar. Sverrir sagði, drjúgur að vanda, að fréttamönnum mætti vera ljóst hvers vegna hann gæti alls ekki látið kjósa á milli sín og Bárðar. Við þetta gerði fréttamaðurinn engar athugasemdir og spurði ekki frekar út í þetta. Hlustendur, sem höfðu bæði fylgst með samvinnu þessara manna um langt skeið og svo með kosningabaráttu þeirra í nokkra daga, þurftu að láta sér þessa vitleysu nægja.

Hvort eitthvað gott getur komið út úr þessum ólíkindalega farsa er erfitt að segja, en þó má binda vonir við að fjölmiðlar læri af þessu og taki sig saman í andlitinu . Að þeir fari að flytja raunverulegar fréttir og fara fram á svör frá viðmælendum sínum við sjálfsögðum spurningum. Það er kominn tími til að fjölmiðlar taki sig alvarlega, því þeir fara ævinlega fram á að aðrir taki þá þannig.