Laugardagur 28. nóvember 1998

332. tbl. 2. árg.

Undanfarna áratugi hefur ríkisvald víða kappkostað að setja borgurunum stólinn fyrir dyrnar. Alltaf er þó látið í veðri vaka að hindranirnar séu settar fólki til hagsbóta. Endalausar reglur eru settar um „aðbúnað“, „skráningu“ og „eftirlit“, sækja þarf um „leyfi“ fyrir sífellt smærri hlutum og núorðið eru slík leyfi sjaldnast veitt nema „að höfðu samráði“ við menn sem reka „verkalýðsfélag“. En þetta hefur ekki alltaf verið svona. Á fyrri hluta aldarinnar ferðaðist austurríski rithöfundurinn Stefan Zweig víða og kom meðal annars til Bandaríkjanna. Í ævisögu sinni segir hann svo af dvöl sinni þar:

zweig.jpg (14606 bytes)
zweig.jpg (14606 bytes)

„Ég gerði mér upp leik. Ég hugsaði með mér, að ég væri innflytjandi, sem flakkaði hér einn síns liðs með aðeins sjö dali í vasanum. Gerðu, sagði ég við sjálfan mig, það sama og slíkur maður verður að gera. Láttu sem þú sért neyddur til að fara að vinna fyrir mat þínum, í síðasta lagi eftir þrjá daga. Svipastu um eftir atvinnu, eins og sá sem kemur hér vinalaus og ókunnugur. Síðan tók ég að ganga frá einni ráðningarstofunni til annarrar og kynna mér auglýsingarnar á dyrum þeirra. Á einum stað vantaði bakara, á öðrum aðstoðarbréfritara, sem talaði frönsku, á þeim þriðja afgreiðslumann í bókabúð. Í hinu nýja hlutverki hentaði þetta síðasttalda starf mér prýðisvel, svo ég klöngraðist nokkra járnstiga upp á þriðju hæð, spurðist fyrir um launakjör og bar þau saman við auglýsingar blaðanna um herbergisleigu í Bronx. Eftir þriggja daga „atvinnuleit“ hafði ég fundið fimm stöður, sem allar máttu teljast boðlegar til lífsuppeldis. Á stefnulausum flækingi hefði ég aldrei getað gengið svo vel úr skugga um, hvílíkt olnbogarými og tækifæri þetta unga land hafði upp á að bjóða, og fannst mér mikið til koma. Með því að flakka þannig milli skrifstofanna og kynna mig hjá fyrirtækjum gafst mér einnig innsýn í dýrlegt frelsi þessa lands. Enginn spurði eftir þjóðerni mínu, trúarbrögðum né uppruna, og auðvitað ferðaðist ég án vegabréfs, þótt slíkt láti fáránlega í eyrum manna sem vanizt hafa fingrafararannsóknum og lögregluríkjum. En hér beið starf eftir vinnandi höndum og það reið baggamuninn. Á þessari horfnu frelsistíð mátti gera kaupsamning á stundinni án þess að ríki og stéttarfélög kæmu þar nærri með vafningasöm formsatriði.“

Í dag eru 117 ár liðin frá fæðingu Stefan Zweig.