Föstudagur 27. nóvember 1998

331. tbl. 2. árg.

„Við finnum til skyldunnar,“ sagði Magnús L. Sveinsson formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur þegar hann afhenti SÁÁ 15 milljónir króna fyrr í þessum mánuði. Aðalfundur VR síðastliðið vor hafði samþykkt að styrkja SÁÁ um þessa upphæð. Hér skal ekki gagnrýnt að SÁÁ sé styrkt til að starf samtakanna megi verða sem árangursríkast, en það er hins vegar full ástæða til að gagnrýna þennan tiltekna styrk.

VR fær, eins og önnur verkalýðsfélög, greiðslur frá launamönnum hvort sem þeim líkar betur eða verr. Þeir sem vinna í ákveðnum greinum eru neyddir til að greiða til VR og er það réttlætt með því að félagið gæti að kjörum þeirra sem greiða. Sú réttlæting dugar auðvitað engan veginn fyrir skyldugreiðslunni og er brot á sjálfsögðum rétti manna til að standa utan félaga. Þegar við bætist að verkalýðsfélögin hafa efni á að styrkja alls kyns óskylda starfsemi – hversu góð sem hún kann að vera – er mælirinn fullur. Formaður VR kann að finna til skyldunnar fyrir annarra fé, en ýmsir þeirra segja líklega frekar: „Ég finn til skyldugreiðslunnar.“

ruv-logo.gif (1654 bytes)
ruv-logo.gif (1654 bytes)

Lögbundin áskriftagjöld RÚV voru hækkuð um 5% á dögunum. Væntanlega er það liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn „þenslunni“ enda kaupir fólk sér ekki nýtt sjónvarp á meðan peningarnir fara í sjálfa sjónvarpsdagskrána. En sjálf myndin í sjónvarpinu virðist ekki skapa „þenslu“ heldur aðeins sjónvarpskassinn sjálfur. Þ.e.a.s. ef   Vef-Þjóðviljinn hefur skilið efnahagslögmál ríkisstjórnarinnar rétt. Einn hópur er undanþegin þessum aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn „þenslunni“ en það eru starfsmenn RÚV. Þeir eru undanþegnir afnotagjöldunum enda eru þeir jú partur af myndinni sem kemur úr kassanum.

Þess ber þó að geta að undaþága starfsmanna RÚV á sér þó enga lagastoð nema þeir séu allir öryrkjar en heimilt er að veita öryrkjum undanþágu frá greiðslu afnotagjaldsins. Ekki fer heldur neinum sögum af því að starfsmenn RÚV greiði skatt af þessum hlunnindum.

Vef-Þjóðviljinn minnir á að hann er rekinn fyrir frjáls framlög. Bæði reksturinn á vefnum og kynning á honum. Hér getur þú slegist í hópinn.