Þriðjudagur 1. desember 1998

335. tbl. 2. árg.

Í gær bauðst Gunnlaugur Sigmundsson þingmaður Framsóknarflokksins til að vera ekki í framboði við næstu kosningar. Þetta heitir að gera mönnum tilboð sem þeir geta ekki hafnað!

Sá einstæði atburður átti sér stað í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldiIngibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri missti út úr sér að hún hefði vísvitandi logið að kjósendum fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Í samtali við Kristin Hrafnsson fréttamann hélt Ingibjörg Sólrún því fram að ástæða hækkunar R-listans á útsvari Reykvíkinga væri gamall „undirliggjandi“ rekstrarhalli. Fréttamaðurinn spurði þá hvort þetta hefði ekki allt verið vitað fyrir kosningar. Þá svaraði borgarstjóri orðrétt: „Þekkir þú einhver dæmi þess, að þeir sem eru að bjóða sig fram til kosninga lofi skattahækkunum?“

Með þessu er borgarstjóri augljóslega að viðurkenna að hafa vísvitandi logið að kjósendum fyrir kosningar í þeim tilgangi að ná kjöri.

Sú skattahækkun sem leiddi til þessarar óvenjulegu játningar borgarstjóra er ekki af smærri sortinni og nemur litlum eitt þúsund milljónum króna á ári. Þetta þýðir að fjögurra manna fjölskylda þarf að greiða borginni 40.000 krónum meira á ári hverju hér eftir en hingað til. Að minnsta kosti þar til R-listinn hækkar skatta næst, en hann hefur gert það nokkuð reglulega, samanber holræsaskatt, heilbrigðiseftirlitsskatt, útsvarshækkun og svo framvegis.