Laugardagur 14. nóvember 1998

318. tbl. 2. árg.

Steingrímur Hermannsson fer mikinn í fjölmiðlum þessa dagana til að auglýsa nýútkomna bók sína. Í Degi, sem er málgagn nokkurra flokka og flokksbrota, yst á vinstri væng íslenskra stjórnmála, birtist viðtal við Steingrím Hermannsson í vikunni, þar sem hann hann gagnrýnir forystu Framsóknarflokksins og segir: „En get ekki neitað því að mér finnst þessi félagslegu sjónarmið, eins og til dæmis samvinnuhugsjónin, jafnrétti og jafnræði, hafa lítið verið höfð á oddinum síðustu misserin og ég held að ég sé ekki einn um það.“

Það er athyglisvert að Steingrímur skuli sérstaklega sjá eftir „samvinnuhugsjóninni“. Í grein í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er sorgarsaga KEA rakin og sagt frá því hvernig kaupfélögin og samvinnuhreyfingin nærðust á pólitískri spillingu. Þar er meðal annars að finna þessa tilvitnun í ævisögu Erlendar Einarssonar, Staðið í ströngu: „Sambandið studdi Framsóknarflokkinn að vísu fjárhagslega. Slíkt var ekki óeðlilegt þar sem flokkurinn studdi við bakið á samvinnuhreyfingunni.“

Hvers vegna Steingrímur nefnir samvinnuhugsjónina í sömu andrá og jafnrétti og jafnræði er ráðgáta. Hún á miklu frekar heima í setningum með hugtökum á borð við pólitíska spillingu, fyrirgreiðslupólitík, hrossakaup og síðast en ekki síst – grænar baunir.