Föstudagur 13. nóvember 1998

317. tbl. 2. árg.

Töluverð umræða hefur átt sér stað að undanförnu um kosti þess og galla að banna viss fíkniefni. Af þessu tilefni hélt Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn því fram í DV á dögunum að glæpatíðni í Amsterdam væri mun hærri en í höfuðborgum Norðurlandanna en þar er neysla maríúana látin óátalin. Staðhæfði Ómar Smári að morð í Amsterdam væru 40 á hverja 100.000 íbúa á ári. Vitnaði hann til skýrslu frá Interpol.

Í gær ritar Gunnlaugur Jónsson nemi grein í DV. Þar nefnir hann að samkvæmt upplýsingum frá hollensku hagstofunni hafi verið 46 morð í Amsterdam á árinu 1996 eða 6,6 morð á hverja 100.000 íbúa. Jafnframt upplýsir Gunnlaugur að samkvæmt hollensku hagstofunni séu 1,8 morð á 100.000 íbúa í Hollandi öllu. En hvað skýrir þennan mikla mun á tölum Ómars Smára og hollensku hagstofunnar?
Um það segir Gunnlaugur í grein sinni: „Starfsmaður hagstofunnar í Hollandi taldi líklegt að í tölum Ómars Smára væri búið að leggja morð, manndráp af gáleysi og morðtilraunir í eina tölu. Það sem styður þá kenningu er að tölur Ómars koma frá Interpol þar sem sá háttur er hafður á í tölum fyrir Holland. Í skýrslu sem ég hef undir höndum frá Interpol er sterklega varað við notkun talna frá stofnuninni til samanburðar milli landa.“

Sú spurning hlýtur að vakna hvort Ómar Smári skipti ekki um skoðun nú þegar þessar tölur hafa verið leiðréttar enda byggðist allur rökstuðningur hans fyrir áframhaldandi banni á einmitt þessum tölum.