Helgarsprokið 15. nóvember 1998

319. tbl. 2. árg.

Íslendingar eru að verða alþjóðleg fyrirmynd í sjávarútvegi. Við höfum af góðri reynslu að miðla. Frjálsa aflamarkskerfið (kvótakerfið) hefur gert íslenskan sjávarútveg að framsækinni atvinnugrein. Það er ekki mörg ár síðan forstjórar útgerðarfyrirtækja stóðu í biðröðum á tröppum ráðuneyta og opinberra sjóða og föluðust eftir lánum og fyrirgreiðslu á kostnað skattgreiðenda. Vandi sjávarútvegsfyrirtækjanna virtist sífelldur og óleysanlegur. Nú stendur almenningur í biðröð eftir að kaupa hlutabréf í þessum fyrirtækjum.

En vafalaust kemur fleira til en kvótakerfið. Bæjarfélög hafa dregið mjög úr þátttöku sinni í rekstri sjávarútvegsfyrirtækja á undanförnum áratug. Einkavæðingin hefur hleypt nýjum starfsháttum að í sjávarútvegsfyrirtækjum, rétt eins og öðrum fyrirtækjum. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki taka nú þátt í spennandi verkefnum um allan heim og íslenskir fyrirlesarar ferðast um og segja frá frjálsa kvótakerfinu.

Skipstjórafélagið Vísir auglýsir um þessar mundir hver afli var á Íslandsmiðum á árinu 1983 þegar aflamarkskerfið var tekið upp og á síðasta ári. Í auglýsingunni (sem m.a. birtist í Morgunblaðinu í dag) má sjá að í helstu tegundum hefur dregið úr afla. Aflinn var mun meiri árið 1983 en í fyrra. Skipstjórafélagið Vísir telur það til marks um að kvótakerfið hafi brugðist. Þætti sjáflsagt mörgum búmanni það undarleg speki að það ár hafi verið best sem mest var slátrað úr bústofninum! Ekki greinir auglýsing Vísis frá afkomu sjávarútvegsins á því mikla aflaári 1983. Ætli hún hafi verið betri en á síðasta ári? Gæti nefnilega ekki verið að þrátt fyrir minni veiði hafi afkoman verið betri á síðasta ári en árið 1983? Hvað fékk sjávarútvegurinn mikla ríkisstyrki árið 1982 samanborið við 1997? Greiddi sjávarútvegurinn kostnað við hafrannsóknir árið 1983?

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að sjávarútvegurinn árið 1997 njóti engra ríkisstyrkja, greiði kostnað við rannsóknir og hafi úr minni afla að spila en 1983 er afkoma hans betri en 1983. Afli segir ekki alla söguna. Stundum taka menn þá ábyrgu afstöðu að stilla veiðum í hóf til að byggja upp fiskistofnana. Skipstjórafélagið Vísir virðist telja það algjört aukaatriði að nýta fiskistofnana með skysamlegum hætti. Frjálsa aflamarkskerfið hefur það í för með sér að veiðirétturinn verður minna virði ef menn ganga óhóflega á fiskistofnana. Þess vegna hefur kvótakerfið haft þau áhrif, ekki síst eftir 1990 en það ár var kerfið fest í sessi, að þrýstingur á stjórnvöld um veiðar umfram ráðleggingar fiskifræðinga hefur minnkað. Eru nú fáir svo óábyrgir að þrýsta á um ofveiði – nema Vísir.

Frá því Vef-Þjóðviljinn hóf göngu sína fyrir nær 700 tölublöðum hafa lesendur reglulega óskað eftir því að sett yrði upp leitarvél fyrir blaðið. Nú hefur verið komið til móts við þessar óskir með leitarvél sem finna má í rammanum hér til vinstri. Í tilefni þessarar bættu þjónustu minnir Vef-Þjóðviljinn á styrktaráskriftir sínar en þær standa undir kostnaði við útgáfuna og kynningu á henni. Útgáfan lifir einfaldlega á frjálsum framlögum!