Menn hafa oft furðað sig á þeirri þörf sem Evrópusambandið hefur á að setja reglur um hvert smáatriði í tilverunni. Raunar bera þessar reglugerðir oftast heitið tilskipun. Sennilega til að menn séu ekki með neitt múður. Ein tilskipunin sem komið hefur nokkuð við sögu hér á landi er tilskipun um vinnutíma. Bæði vegna þess að hér hefur tíðkast að ungmenni fengju að vinna í fríum fremur en að mæla göturnar en það er ekki í samræmi við tilskipunina. Eins hefur þessi tilskipun þótt taka lítt tillit til þess að hér er oft unnið í skorpum til sjávar og sveita.
En þessi tilskipun þótti ekki bara vera úr takti við íslenskan veruleika heldur var nokkrum starfstéttum veitt undanþága frá henni, m.a. unglæknum og starfsmönnum flutningafyrirtækja og sjómönnum. En ESB hefur síður en svo gefið það upp á bátinn að setja reglur fyrir þessar stéttir. Hefur framkvæmdastjórn ESB m.a. sent samtökum útgerða og fiskimanna bréf þar sem spurt er ýmissa lykilspurninga svo hægt sé að setja reglur fyrir sjómenn. Hvað er fiskimaður? Hvað er vinnutími á sjó? Hver eru áhrif og gildi siglingatíma? Útgerðarmenn og fiskimenn hafa ákveðinn frest til þess að svara þessum spurningum. Að því búnu fæðist svo væntanlega tilskipun þ.e.a.s. ef ESB fær svar við þeirri spurningu sinni hvað fiskimaður sé eiginlega!
Bílstjórar eiga einnig von á tilskipun þótt ESB þyki að mörgu leyti flókið að gefa tilskipun um vinnutíma þeirra. Ýmislegt flækir málið að mati ESB. Er þvottur á bíl til dæmis hluti af vinnu bílstjóra? Og ef svo er, er þvotturinn hluti af aksturstíma? Hvað með það þegar athugað er með smurolíu og fyllt á tankinn? Hvað með hleðslu á bílinn? Að því ógleymdu að afferma þarf bílinn. Ekki er þó vitað til þess að framkvæmdastjórnin eigi í vandræðum með að átta sig á því hvað sé bílstjóri. En þrátt fyrir öll þessi vandamál ætlar framkvæmdastjórn ESB ekki að láta deigan síga. Í nýjasta tölublaði Evrópufrétta er nefnilega sagt frá því að framkvæmdastjórnin muni koma með tillögur um nýjar vinnutímatilskipanir fyrir bílstjóra og það örugglega fyrir lok þessa árs. Þó það nú væri!