Helgarsprokið 1. nóvember 1998

305. tbl. 2. árg.

Þegar staðgreiðsla skatta var tekin upp árið 1988 var staðgreiðsluhlutafall tekjuskatts einstaklinga 35,20%. Þegar vinstri stjórn Steingríms Hermannssonar, Ólafs Ragnars Grímssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og Stefáns Valgeirssonar lét af völdum vorið 1991 var hlutfallið komið í 39,79%. Hlutfallið hélt svo áfram að hækka allt til ársins 1996 þegar það var komið í 41,94%. Það ár voru þau 4% launa sem launþegar greiða í lífeyrissjóð undanþegin staðgreiðslu í áföngum. Þ.e. þar til lífeyrissparnaðurinn er greiddur út en þá er greiddur fullur skattur. Á það ber einnig að líta að fæstir launþega ráða nokkru um það í hvaða lífeyrissjóð lífeyrissparnaður þeirra rennur og óvíst er hvað menn fá síðar í sinn hlut þannig að greiðslurnar hafa öll einkenni skatts. Frá 1996 hefur staðgreiðsluhlutfallið svo lækkað jafnt og þétt og verður komið niður í 38,02% nú um áramótin. Þá mun fólki einnig gefast kostur á að leggja 2% launa sinna aukalega til hliðar í lífeyrissparnað að eigin vali án þess að greiða tekjuskatt af þessum 2%.

Á þessum tíu árum hafa skattleysismörk lækkað úr um 70 þúsund krónum í tæpar 60 krónur sé miðað við verðlag í dag. Hátekjuskattur hefur einnig verið lagður á en leggst ekki bara á þá sem alltaf eru með háar tekjur heldur einnig hina sem leggja hart að sér í stuttan tíma og hafa miklar tekjur tímabundið til að fjármagna húsnæðiskaup eða annað meiri háttar. Töluverðar breytingar hafa einnig orðið á tekjutengingu bóta á þessum árum og skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa breyst fram og til baka og skattaafsláttur vegna húsnæðissparnaðar verið felldur niður. Það er því ekki gott að gera raunhæfan samanburð á stöðunni í dag og fyrir tíu árum. En það er þó ljóst að tekjuskatturinn einn og sér er enn hærri en hann var árið 1988 þegar staðgreiðslukerfið var tekið upp.

Það er einnig ljóst að hringlið með þetta kerfi sem í upphafi átti að vera einfalt og þægilegt fyrir bæði ríkið og skattborgarann hefur valdið mönnum töluverðum óþægindum. Tíðar breytingar á staðgreiðsluhlutfallinu og persónufrádrætti kallar t.d. á jafn tíðar breytingar á launaútreikningum fyrirtækja. Erfitt er fyrir einstaklinga að gera raunhæfar áætlanir þegar von er á breytingum á nokkurra mánaða fresti. Það má vafalaust meta þau óþægindi sem slíkar breytingar hafa í för með sér til fjár og telja þær ígildi skattheimtu. A.m.k. meðan breytingarnar hafa verið íþyngjandi fyrir skattborgarann sem vissulega á við um árin 1988 – 1996 eða átta af þeim tíu árum sem liðin eru frá því staðgreiðslan var tekin upp.