Laugardagur 31. október 1998

304. tbl. 2. árg.

Þá hefur dómsmálaráðuneytið átt einn snilldarleikinn til. Nú hefur það kynnt nýtt skipurit lögreglunnar í Reykjavík og er þar gert ráð fyrir að varalögreglustjóri verði æðsti maður daglegrar stjórnunar. Lögreglustjóri sinni hins vegar „langtímastefnumótun“ og verði þar að auki staðgengill varalögreglustjóra. Þetta er brýn nýbreytni og gefur kost á skilvirkri stjórnun af hálfu ráðuneytisins. Hið eldra kerfi gerði ekki ráð fyrir að hægt væri að umbuna lögreglustjóra sérstaklega fyrir vel unnin störf, en nú úr því bætt. Lögreglustjóri sem stendur sig vel getur nú með tímanum hækkað í starf varalögreglustjóra. Að sama skapi fær ráðuneytið aukin færi á að halda varalögreglustjóra við efnið: Standi hann sig ekki í stykkinu verður hann einfaldlega lækkaður í tign og gerður að lögreglustjóra.

Og þar sem ráðuneytið hyggst nú láta lögreglustjóra strita myrkranna á milli við hið viðamikla verkefni, stefnumótun til framtíðar, vill Vefþjóðviljinn létta honum þann erfiða róður með því að stinga upp á eftirfarandi framtíðarstefnu Lögreglunnar í Reykjavík:
„Lögreglan í Reykjavík stefnir eindregið að því að í framtíðinni verði glæpamenn borgarinnar – teknir fastir.“