Þriðjudagur 3. nóvember 1998

307. tbl. 2. árg.

Allra nýjasti vinstri flokkurinn, (flokkurinn sem ekki er búið að stofna en er þegar kominn með frambjóðendur, stefnu og nafn) hefur kunngjört þá ákvörðun sína að „gera upptækan“ þann gróða sem hlýst af þeim atvinnurekstri sem styðst við sérleyfi eða einokun. Það verður gaman að heyra þegar frambjóðendurnar fara að útlista þá stefnu fyrir – leigubifreiðarstjórum.

Síðustu formenn Alþýðubandalagsins hafa, líkt og kollegar þeirra í Alþýðuflokki, lagt sig fram um að leggja flokkinn sinn niður. Formenn Alþýðuflokksins hafa aðallega gert það með því að benda stöðugt á að flokkurinn sé tímaskekkja – hafa í raun talað flokkinn í hel – en formenn Alþýðubandalags hafa valið þá leið helsta að koma flokknum á kné fjárhagslega. Hefur þeim tekist vel upp og eru skuldir flokksins nú um 50 milljónir króna og er nú svo komið að hann getur ekki lengur rekið skrifstofu. Þetta er undraverður árangur og eiga þessir forystumenn, Jón Baldvin Hannibalsson, Ólafur Ragnar Grímsson, Sighvatur Björgvinsson og Margrét Frímannsdóttir, heiður skilinn.

Það var að vísu ekki ætlun þessara leiðtoga að ekkert kæmi í staðinn. Út úr þessum flokkum og Kvennalista átti að koma einn stór og glæsilegur skandinavískur krataflokkur. Sá flokkur virðist þó ætla að láta á sér standa og í stað þess að vinna saman nota forystumenn flokkanna nú hvert tækifæri til að munnhöggvast í fjölmiðlum. Það nýjasta í því er að Guðmundur Árni Stefánsson hefur séð ástæðu til að svara skilyrði Kvennalistans, um að jafnræði verði með flokkunum á framboðslistum, með þóttafullri athugasemd um að ekkert slíkt komi til greina. Margrét Frímannsdóttir tók í sama streng. Þar sem þetta skilyrði Kvennalistans var samþykkt með 42 atkvæðum gegn 2 á landsfundi Kvennalistans, má ljóst vera að líkur á samstarfi þessara flokka fara ört minnkandi.