Miðvikudagur 28. október 1998

301. tbl. 2. árg.

Töluverð eftirspurn er eftir jörðum. Meiri en oft áður. Í dag er rétti tíminn til að selja – líka fyrir ríkið. En ríkið á stóran hluta Íslands, bæði svonefndar ríkisjarðir og nýlega hefur ríkið lagt drög að því að sölsa undir sig hluta hálendisins. Útivistaráhugi almennings hefur aukist mjög á undanförnum árum. Útivistar- og veiðifélög vilja tryggja félagsmönnum sínum aðgang að náttúrunni. Þessi félög hafa jafnframt hagsmuni af því að vernda umhverfið. Í Bandaríkjunum eru öflugustu raunverulegu umhverfisverndarsamtökin einmitt samtök útvistarfólk og áhugamanna um veiði. Á meðan jarðirnar eru í ríkiseign hefur hins vegar enginn hag af því að trygga hóflega umgengni um þær. Í þessu máli eins og svo mörgum öðrum fer það saman að draga úr ríkisumsvifum og gæta um leið hagsmuna umhverfisins.

Ný vinstrihreyfing (ókei gamlir vinstrimenn í nýju félagi) boðar grænt framboð og kynnti stefnuskrá sína um helgina. Það má vissulega segja um þetta framboð að stefna þess er skýrari en samfylkingarinnar þótt fátt sé skynsamlegt. Eitt er þó gott í stefnunni hjá grænum kosti. Í stefnuskránni segir: „Gera á upptækan allan sértækan gróða sem leiði af einokunar- eða fákeppnisaðstöðu einstakra fyrirtækja“. Ekki er þó alveg ljóst hvert hinn upptæki gróði á að renna enda rennur allur hagnaður af einokunarstarfsemi í ríkissjóð í dag. Það eru nær eingöngu fyrirtæki í eigu ríkisins sem njóta einokunaraðstöðu; Ríkisútvarpið, Landssíminn, Íslenskir aðalverktakar, Seðlabankinn o.s.frv.  Hér hlýtur því að vera átt við að skila eigi einokunargróðanum til almennings með skattalækkunum.

Tvær undantekningar eru þó frá því að ríkið einoki einokunina en þar koma verkalýðsfélög og lífeyrissjóðir við sögu. T.d. félög þeirra Ögmundar Jónassonar, Drífu Snædal og Svanhildar Kaaber. Verkalýðsfélögin meina fólki að vinna nema eftir sérstakri verðskrá og lífeyrissjóðirnir taka sér viðskiptavini að vild að  viðskiptavinunum forspurðum. Sjálfsagt er að afnema þessa einokun og draga þar með úr „sértækum“ einokunargróða verkalýðsfélaga og lífeyrissjóða.