Þriðjudagur 27. október 1998

300. tbl. 2. árg.

„Tillaga til þingsályktunar um fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr þunglyndi kvenna,“ er eitt af  framlögum Kristínar Ástgeirsdóttur á löggjafarsamkomu þjóðarinnar. Hún sér fyrir sér að með „víðtækum aðgerðum“ hins opinbera megi minnka þunglyndi meðal kvenna. Aukin ríkisafskipti og þyngri skattbyrði eru auðvitað lausnin á þessum vanda eins og öðrum að mati þingmannsins.
En tillaga sem þessi minnkar ekki heldur eykur þunglyndi fólks. Nema að vísu þeirra sem sjá grínið í öllu saman og átta sig á að Kristín hlýtur með þessu að vera að benda þjóðinni á fáránleikann sem viðgengst á Alþingi.

Ýmsir telja að með því að setja lög og reglur um sem flest tilvik í mannlegu samfélagi megi koma í veg fyrir árekstra. Aðrir benda á að lög og reglur þvælast oft fyrir fólki og koma í veg fyrir að eðlilegar samskiptavenjur þróist. Löggjafinn geti hvort eð er aldrei séð öll tilvik fyrir. Ef allt er niðurnjörvað með lögum og reglum verður ekki sú þróun og tilraunastarfsemi sem nauðsynleg er fyrir þjóðfélagið.
Áratugum saman hafa íbúðir í fjöleignahúsum gengið kaupum og sölum án þess að fyrir liggi þar til gerðir eignaskiptasamningar, dregnir upp af þar til gerðum fulltrúa með tilskilið tæknilegt próf, samþykktir af hæstvirtri bygginganefnd bæjarins og þinglýstir í bak og fyrir. En frá og með áramótum verður ekki hægt að selja íbúðir í fjöleignahúsum nema slíkir eignaskiptasamningar liggi fyrir. Verða þeir sem ætla að selja íbúðir sínar að leggja fram tugi eða hundruð þúsunda króna til að fá slíkan samning. Raunar er búið að fresta gildistöku þessarar kvaðar tvisvar þar sem augljóst mátti vera að ekki tækist að ljúka gerð eignaskiptasamninga fyrir mörg þúsund hús um land allt sem fólk hefur vogað sér að búa í án teljandi erfiðleika án þess að eignaskiptasamningur liggi fyrir. Sömu sögu er að segja nú. Þeirri tillögu er því varpað fram hér að þegar þessu ákvæði verður frestað í þriðja sinn nú í haust verði sú frestun ótímabundin.

Vefþjóðviljinn minnir oft á að frelsið glatast yfirleitt ekki allt í einu. Ríkisvald hneigist hins vegar til þess að þenjast út og opinberir starfsmenn reyna jafnan að beygja aðra undir sín viðhorf, ýmist með lögum, reglugerðum, skilyrðum, eftirliti og „réttindum“ þriðja manns. Þess vegna er mikilvægt fyrir borgarann að berjast gegn hvers kyns útþenslu hins opinbera því þar býður hver ósigur öðrum heim. Sumir trúa ekki á þennan málflutning og halda ýmsir að hann beri keim af hálfgerðu ofsóknaræði. Dæmin eru hins vegar mýmörg um útþenslu opinbers valds sem byrjað hefur sakleysislega. Á síðasta ári voru settar upp myndavélar á nokkrum gatnamótum í því skyni að klófesta þá glæpamenn sem stundum aka á móti rauðu ljósi. Voru margir fegnir þessu en Vefþjóðviljinn leyfði sér þó að gagnrýna þetta og sagði þá meðal annars:

„En hér sem annars staðar er vert að hugsa sig vel um áður en menn fagna útþenslu hins opinbera. Hver segir að staðar verði látið numið við rauð ljós og gatnamót? Ýmsir þykjast geta hugsað sér jafnvel enn hræðilegri glæpi en umferðarlagabrot. Hvers vegna verða ekki settar upp myndavélar þar sem verri ódæðisverk kunna að vera framin? Í miðbænum, inni á vínveitingastöðum, á öllum útihátíðum og svo mætti lengi telja. Þegar svo væri komið yrði næsta skref stutt, en það yrði vitaskuld að setja upp myndavélar þar sem ofbeldið hvað vera mest, inni á heimilum landsmanna. Fyrst hið opinbera er farið að setja upp myndavélar og enginn mótmælir því, hví skyldi ríkið þá takmarka sig við eina tegund lögbrota og alls ekki þá skaðlegustu?“

Þessi viðvörunarorð þótti ýmsum vera tóm paranoia. Þetta var í fyrra, núna eru myndavélarnar komnar í miðbæinn. Og enn segir enginn neitt.