Mánudagur 26. október 1998

299. tbl. 2. árg.

Ef marka má stefnu nýs vinstra framboðs sem kynnt var í gær hyggst framboðið staðsetja sig vinstra megin við „samfylkingu“ Margrétar Frímannsdóttur og Sighvatar Björgvinssonar, vinstra megin við Fidel Castro og jafnvel Kim Jong Il. Til að bæta ásýndina er settur grænn stimpill á framboðið, en áður var mönnum ekki kunnugt um að menn eins og Steingrímur Joð væru sérstakir áhugamenn um náttúruvernd. Ekki umfram aðra vel meinandi menn að minnsta kosti.

Það helsta sem Steingrímur hefur ritað um umhverfismál er grein sem birtist í Mogganum áður en öldungurinn Keikó kom til landsins, þar sem Steingrímur lýsti þeirri skoðun sinni að líklega væri réttast að skjóta þennan hval. En það má auðvitað vera að þetta sé brýnt umhverfismál og að byltingarhetjurnar sem að framboðinu standa muni nú storma til Eyja og vega hvalinn. Sjálfsagt væri það ekki vitlausari endir en hver annar á brölti vinstri manna.

Í bókinni 1984 lýsir Orwell því hvernig ríkið hefur í krafti tækninnarnáð algerum tökum á fólki. Fylgst er með fólki við hvert fótmál frá morgni til kvölds og ef einhver bregður út af settum reglum eða reynir sjálfstæða hugsun grípur ríkið óðara inn í og kemur viðkomandi aftur á „rétt“ spor. Þetta var óhugguleg framtíðarsýn en hefur sem betur fer ekki orðið að veruleika. Tæknin hefur frekar unnið gegn harðstjórnum, t.a.m. hafa ljósritunarvélar og faxtæki hjálpað til við að koma alræðisstjórnum frá völdum.

Kínverjar vilja vera framarlega í tæknimálum og hefur harðstjórnin á meginlandinu því ekki bannað notkun netsins. Almennir borgarar hafa tekið vel við sér og notkun netsins vaxið gífurlega og eru nú yfir milljón Kínverjar á meginlandinu tengdir við netið. Harðstjórnin óttast hins vegar að netið kunni að verða henni að falli, því það er notað til að miðla upplýsingum um voðaverk hennar og kosti markaðshagkerfisins umfram hið sósíalíska kerfi. Og betur upplýstur almenningur sem ekki er eingöngu háður áróðri stjórnvalda sættir sig ekki til langframa við óbreytt ástand. Þess vegna hafa yfirvöld komið upp netlögreglu sem reynir að hafa uppi á þeim sem ekki nota netið með „réttum“ hætti.

„Glæpirnir“ sem menn eru sóttir til saka fyrir geta meðal annars verið fólgnir í því að senda út „skaðlegar upplýsingar sem vega að landfræðilegum hagsmunum þjóðarinnar, vega að sjálfstæði þjóðarinnar eða vega að hinu sósíalíska kerfi okkar,“ svo vitnað sé til orða yfirmanns netlöggunnar, Qing Guang, í Washington Post hinn 24. þessa mánaðar. Með öðrum orðum: „Enginn má fjalla um stjórnmál nema vera sammála harðstjórninni.“

Martröð Orwells tórir enn í draumaríkjum sósíalismans.