Fimmtudagur 29. október 1998

302. tbl. 2. árg.

Nú stendur til að selja 49% af hlut ríkisins í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og er það vel (a.m.k. svo lengi sem hálfopinberir aðilar á borð við Brunabótafélagið kaupa sig ekki inn í bankann). Afgangurinn verður svo vonandi seldur fljótlega til að fjármálakerfið hér haldi áfram að mjakast í rétta átt. Hið opinbera hefur á þessari öld sölsað undir sig ótrúlegar eignir, á þessu sviði sem öðrum. Í dag er aðeins þriðjungur eigna hér á landi í höndum einkaaðila samkvæmt greinargerð með frumvarpi Péturs Blöndals og fleiri þingmanna um eignarhald á lífeyrissjóðum, en tveir þriðju hlutar eru í beinni eign ríkis og sveitarfélaga eða með öðrum hætti utan við bein eignaryfirráð einstaklinga. Þar er t.d. átt við samvinnufélög, mjólkursamlög og lífeyrissjóði, en yfirráð þeirra sem líklega ættu að teljast réttir eigendur eru í mörgum slíkum tilvikum lítil sem engin, með tilheyrandi skorti á eftirliti eigenda.

Jarðasjóður sem sér um á sjötta hundrað ríkisjarða er í umsjá landbúnaðarráðuneytisins. Ríkisendurskoðun hefur nú sent frá sér skýrslu um skrautlega meðferð á þessum jörðum. Þannig voru gjöld af jörðunum 8 milljónir umfram tekjur á síðasta ári! Með öðrum orðum var tap á því að leigja jarðirnar út. Jarðasjóður hirðir ekki um að auglýsa þegar hann leigir eða selur jarðir. Leiga á jörðunum er oft furðulega lág (sem skýrir tapið) og ekki er hirt um að kanna veðbönd eða kvaðir á jörðum þegar þær eru keyptar. Það kemur auðvitað ekki á óvart að ríkisrekstur sé með þessum hætti. En meðferð þessara jarða hjá landbúnaðarráðuneytinu styður það sem sagt var í Vef-Þjóðviljanum í gær um nauðsyn þess að einkavæða þessar jarðir.