Fimmtudagur 1. október 1998

274. tbl. 2. árg.

Í dag verður fjárlagafrumvarp fyrir árið 1999 kynnt. Í síðasta ári náðist sá merki áfangi að reka ríkissjóð án halla. En sá hængur er þó á að hallanum var ekki eytt með sparnaði heldur auknum tekjum. Ríkisútgjöldin héldu áfram að vaxa en tekjurnar jukust bara hraðar. Þessar auknu tekjur má þakka þeim hagvexti sem verið hefur undanfarin ár. Skatttekjur hafa aukist með auknum umsvifum í þjóðfélaginu, Og þær hafa verið notaðar til að auka ríkisútgjöld á nær öllum sviðum.

Það kemur því nokk á óvart að meiri hluti aðspurðra í nýlegri skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar telur sjálfsagt að hækka skatta til að auka útgjöld hins opinbera til velferðarmála (menn benda þó á að hlutfall þeirra sem svöruðu á þann veg er svipað og hlutfall þeirra sem ekki greiða tekjuskatt). Þrátt fyrir að ríkisútgjöld hafi vaxið hröðum skrefum telja menn greinilega að stórkostlegur niðurskurður hafi farið fram á opinberri þjónustu og ástæða sé til að snúa þeirri skelfilegu þróun við með skattahækkunum!

Mætti Alþingi gjarna líta aftur til ársins 1927 þegar aðhaldssöm stjórn Íhaldsflokksins hafði skilað af sér góðu búi og við tók vinstri stjórn Framsóknarflokksins undir forsæti Tryggva Þórhallssonar. Um það segir í bók Jakobs F. Ásgeirssonar Þjóð í hafti: „Þeir Tryggvi og Jónas frá Hriflu notuðu góðærið til þess að reisa sjúkrahús og skóla og hefja miklar nýbyggingar í sveitum. Þær framkvæmdir báru vott um djarfan framfarahug, en við höfðum ekki bolmagn til þeirra og það kom okkur í koll þegar skyndilega harðnaði á dalnum. Þá áttum við ekkert í handraðanum…“
Þegar kreppan skall á og verð sjávarafurða hrapaði varð að grípa til hinna hressilegustu sparnaðaraðgerða eftir bruðlið í vinstri stjórninni. Ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks sem tók við árið 1932 undir forsæti Ásgeris Ásgeirssonar lækkaði ríkisgjöldin í 12,4 milljónir en þau höfðu verið 16,3 milljónir árið 1930. Þetta samsvarar 24% lækkun ríkisútgjalda. Hvað ætli slík lækkun yrði talin í dag ef látlausar hækkanir eru talar meiriháttar niðurskurður?

Ekki er langt síðan fluttar voru tíðar fréttir af því hversu illa væri komið fyrir örfoka hálendi Íslands og gott ef það var ekki nefnt stærsta eyðimörk Evrópu. Vatn, veður og eldgos að ógleymdri sauðkindinni hafa mótað þetta svæði um aldir. En undanfarið hefur allt snúist við og nú heitir örfoka hálendið „ósnortið víðerni“. Á þetta sérstaklega við um fréttir Ríkissjónvarpsins og fréttaritara þess á víðerninu. En líklega virkar það betur sem áróður gegn hugsanlegum virkjunum á þessum svæðum.