Miðvikudagur 30. september 1998

273. tbl. 2. árg.

Dagana 15. til 17. október næstkomandi verður haldin ráðstefna í Reykjavík á vegum samtaka sem nefnast Centers for the Study of Emerging Institutions (CSEI). Á ráðstefnunni verður rætt hvernig tækniframfarir eins og Netið hafa auðveldað hindrunarlaus viðskipti milli landa og hvernig menn geta gætt hagsmuna sinna á slíku „svæði“ sem teygir sig yfir allan heiminn. Verður m.a. litið til þess hvernig Íslendingar fóru að því að framfylgja lögum án miðstýrðs valds á þjóðveldistíma. Það er ein ástæðan fyrir því að Ísland er valið sem fundarstaður en einnig telja samtökin að Ísland hafi einstaka stöðu þar sem landið sé utan bandalaga á borð við ESB, NAFTA og ASEAN. Eins og sjá má á dagskránni eru margir athyglisverðir fyrirlestrar í boði. Áhugamenn um lögfræði, hagfræði og stjórnmál almennt ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.

Viðskiptaráðherra hefur ákveðið að hefja á næstunni sölu á viðbótarhlutafé í Búnaðarbankanum. Eins og áður hefur verið bent á hér í blaðinu hefur einkavæðing ríkisfyrirtækja gengið allt of hægt og hafa m.a.s. stundum verið stigin skref í ranga átt á síðustu árum. En þessi sala og salan á viðbótarbréfunum í Landsbankanum um daginn gefur þó vonir um að úr þessu verði haldið áfram að losa ríkið út úr fjármálastarfsemi, enda á ríkið ekkert erindi í slíkan rekstur og hefur reynslan kennt mönnum að þar er það einungis til óþurftar.

Fyrir utan þessa sölu stendur til að selja Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og er það vel, enda stofnun hans á sínum tíma afar hæpin ráðstöfun. Því miður er ekki útlit fyrir að núverandi ríkisstjórn muni stíga stærri skref í þá átt að koma ríkinu út úr bankarekstri en að framan er nefnt. Það er þó full ástæða til að hvetja ríkisstjórnina til að halda áfram að selja – og þá ekki viðbótarhlutafé – því ljóst er að ólíkt því sem stundum hefur verið haldið fram þá er markaðurinn vel í stakk búinn til að taka við umtalsverðu magni hlutabréfa úr ríkisviðskiptabönkunum tveimur.