Föstudagur 25. september 1998

268. tbl. 2. árg.

Afleiðingar skylduáskriftar að Ríkisútvarpinu gerast æ dramatískari. Lengi hafa íbúðareigendur þurft að þola það að fá til sín heimsókn fulltrúa þessa fyrirtækis, sem eru að hnýsast fyrir um það hvort á heimilinu sé sjónvarp. Sé sjónvarp á heimilinu eru menn skikkaðir til að greiða RÚV dágóða upphæð í hverjum mánuði, hvort sem þeir horfa á útsendingar fyrirtækisins eða ekki. Ekki er heldur tekið tillit til þess hvort menn eru fylgjandi fyrirtækinu eða ekki, þeir skulu borga. Þessari vægast sagt undarlegu sérstöðu sem fyrirtækið nýtur á fjölmiðlamarkaðnum er svo nuddað framan í þá sem reka samkeppnisfyrirtækin og þurfa að hafa fyrir því að halda í áskrifendur, með því að beina auglýsingum að auglýsendum um að betra sé að auglýsa þar sem ekki er ruglað. Það er sem sagt reynt að hala fé tvisvar inn út á sömu skyldugreiðsluna, fyrst beint og svo óbeint.

En svo vikið sé að dramatíkinni hjá innheimtumönnum RÚV, þá herma nýjustu fréttir af þeim bæ að húsráðandi nokkur hafi lent í átökum við þá þegar hann hugðist koma í veg fyrir að þeir þrömmuðu inn á heimili hans. Einhverja áverka munu menn hafa hlotið af þessari furðulegu uppákomu og er lögreglan að rannsaka málið. Það verður ekki annað sagt en nokkuð langt sé gengið þegar innheimtumenn sjónvarpsstöðvar eru farnir að lenda í átökum við menn sem ekki kæra sig um að greiða áskrift að stöðinni. Hætt er við að fulltrúar Vefþjóðviljans þættu standa einkennilega að málum ef þeir færu í hús, könnuðu hvort nettengdar tölvur væru á heimilinu og krefðust ef svo væri skilyrðislausrar og tafarlausrar greiðslu. Líklegt er að hið opinbera stæði fremur með húsráðendum í því tilviki en „rukkurunum“ og má mikið vera ef ekki yrði sett ofaní við þennan fjölmiðil fyrir tiltækið.

Það er meira en kominn tími til að ríkið hætti þessum slæma ósið að reka fjölmiðil og að áskrift að honum verði gefin frjáls eftir að hann hefur verið seldur. Þá geta menn setið heima hjá sér á kvöldin og horft á sjónvarpið án þess að þurfa að óttast að fá innheimtumenn hins opinbera á glugga eða að lenda jafnvel í líkamlegum átökum við þá.