Laugardagur 26. september 1998

269. tbl. 2. árg.

Það er svo sem ekkert nýtt að stjórnmálamönnum mistakist að anna eftirspurn eftir vöru og þjónustu. Biðraðir eftir kartöflum og kjöti í ráðstjórnarríkjunum og biðlistar eftir leikskólaplássum og sjúkraþjónustu hérlendis eru vel þekktir. Í gær kom í ljós að ríkið getur ekki annað eftirspurn eftir hlutabréfum í Landsbankanum hf. Rétt eins og kartöflupokar í sovéskum brautarvagni á röngu spori liggja nú 85% hlutabréfa í Landsbankanum hf. í skrifborðsskúffunni hjá honum Finni. Almenningur var tilbúinn að kaupa þau öll af honum en hann hélt að það „væri ekki rétti tíminn til að selja“.

Að þessu leyti má segja að Finnur hafi misreiknað sig illilega. Hitt er svo annað mál að nú eru hluthafar í Landsbankanum hf. orðnir ríflega 12 þúsund og ólíklegt að þeir kæri sig um að fyrirtæki sem þeir hafa lagt fé í sé stýrt frá skrifborði í ráðuneyti eins flutningavagni í ráðstjórnarríki. Þrýstingur mun því vaxa á að afgangur hlutfjár í bankanum verði seldur. Úboðið leiddi einnig í ljós að ekkert er því til fyrirstöðu að setja aðra banka í eigu ríkisins í sölu.

Hvað ætli menn segðu ef erlent fyrirtæki hefði hafið starfsemi hér á landi, boðið þjónustu sína við lægra verði en íslenskir samkeppnisaðilar gera, en þeir hefðu hlaupið til og fengið það bannað? Hætt er við að mönnum hefði þótt það brot á því, sem allir segjast nú styðja, frjálsri samkeppni. Taka má tvö dæmi. Í fyrsta lagi má ímynda sér að erlent olíufélag hefði opnað hér eldsneytissölu og selt bensín við lægra verði en þau félög sem fyrir eru. Innlend olíufélög hefðu svo æpt að hið erlenda félag tæki allt of lítið fyrir snúð sinn og krafist þess að því yrði skipað að taka meira. Ætli margir hefðu haft samúð með þeim sjónarmiðum? Einnig má ímynda sér að erlendir tannlæknar hefðu komið hingað og hafið hér störf og tekið minna fyrir þjónustu sína en íslenskir tannlæknar gera. Svo hefðu forystumenn Tannlæknafélagsins hlaupið upp með stóryrðum, sagt að hinir erlendu tannlæknar væru allt of lítilþægir og krafist þess að þeim yrði gert að nota taxta Tannlæknafélagsins. Ætli nokkur maður hefði talið það eðlilega kröfu?

Svo má ímynda sér þriðja dæmið. Að hingað komi rússneskir verkamenn sem geri sér að góðu lægri laun en íslenskir kollegar þeirra krefjast. Og forystumenn verkalýðsfélaganna rjúki upp með ofsa og krefjist þess að þessi óhæfa verði bönnuð. Rússarnir skuli sko fá borgað eftir íslenskum töxtum. Félagsmálaráðherra sýni svo að hann sér töffari og segi að þrælahald sé bannað á Íslandi og fyrirskipi að ekki megi borga Rússunum minna en Íslendingum. Að vísu þýddi það að enginn byði Rússum aftur hingað til starfa og þeir fengju þá áfram að njóta lífsins í Murmansk. Ætli nokkrum manni þætti eðlilegt að verða við kröfu íslensku verkalýðsforstjóranna í slíku máli?