Fimmtudagur 24. september 1998

267. tbl. 2. árg.

Hægri flokkurinn (sem til einföldunar kallar sig Venstre) í sveitarfélaginu Farum rétt fyrir norðan Kaupmannahöfn hefur komist að þeirri ágætu niðurstöðu að ekki sé rétt að hafa skattbyrði þyngri en nauðsyn krefur. Af þessari ástæðu verða skólabyggingar, sundlaug og skolpkerfi seld einkaaðilum, en svo leigir sveitarfélagið þessi mannvirki aftur. Við þetta sparast miklir fjármunir og verður það m.a. til þess að skattar verða á næsta ári lækkaðir um 0,4 prósentustig.

Það kann að hljóma einkennilega að hægt sé að spara fé með þessum hætti, en sveitarstjórinn bendir á að einkafyrirtæki hafi ýmsa kosti til að spara sem hið opinbera hefur ekki, t.d. að gera áætlanir til langs tíma, auk þess sem þau hafi sérþekkingu hvert á sínu sviði. En það er ekki einvörðu að fé sparist við þessa breytingu heldur mun viðhald mannvirkjanna líka batna, því í samningnum er ákvæði um að fyrirtækin verji tiltekinni lágmarksfjárhæð, sem er um 50% meira en gert hefur verið hingað til, í viðhald. Þannig verður komið í veg fyrir það sem oft gerist hjá hinu opinbera, að viðhald sitji á hakanum vegna eilífra reddinga fjárhagsáætlana fyrir kosningar.

Hér á landi er oft vísað til þess hvernig „frændur okkar Danir“ leysa málin. Það hefur yfirleitt þýtt aukningu umsvifa hins opinbera, enda hafa Danir verið þekktir fyrir umsvifamikið „velferðarríki“. Nú gefst stjórnmálamönnum tækifæri til að læra eitthvað sem gagn er í af þessum ágætu frændum okkar og vonandi að þeir láti sér það tækifæri ekki úr greipum renna.