Miðvikudagur 23. september 1998

266. tbl. 2. árg.

Formaður Alþýðubandalagsins skirrist enn við að svara fyrirspurnum flokksmanna á síðum Morgunblaðsins um meinta fjármálaóreiðu og jafnvel meintan fjárdrátt fyrrum og núverandi frammámanna í flokknum. Þeir sem spyrja eru kunnir Alþýðubandalagsmenn, þar á meðal Úlfar Þormóðsson, sem lengi hafði afskipti af fjármálum flokksins og safnaði peningum fyrir flokkinn. Í ljósi þeirrar staðreyndar og vegna  framsetningar spurninganna má ljóst vera að hér eru á ferðinni ásakanir sem taka verður alvarlega og þögn formannsins er orðin afar vandræðaleg, svo ekki sé meira sagt.

Hvort þetta þagnarbindindi forystu Alþýðubandalagsins er liður í baráttu vinstri manna fyrir bættu siðferði í íslenskum stjórnmálum er erfitt að segja. En eftir að þeir ákváðu að heiðra skattheimtumanninn Helga Hjörvar með því að gera hann að forseta borgarstjórnar á næsta ári er auðvitað allt mögulegt í þessum efnum, bæði hjá sameinuðum og sundruðum vinstri mönnum.

Það má líka velta fyrir sér hvers vegna fjölmiðlar landsins hafa tekið þátt í þessu þagnarbindindi Alþýðubandalagsmanna. Ætla má, að í flestum lýðræðisríkjum hefðu spurningar á borð við þær sem Úlfar Þormóðsson hefur sett fram, kallað á að fjölmiðlamenn leituðu skýringa hjá forsvarsmönnum Alþýðubandalagsins. Íslenskir fjölmiðlar hafa á síðari árum oft talið tilefni til að fjalla ítarlega um fjármálaóreiðu og misferli í hinum ýmsu geirum þjóðlífsins. Þar á meðal eru mál, sem varða fjármál einstakra einkafyrirtækja og opinberra stofnana. Spyrja má hvort fjölmiðlar, sem sjá ástæðu til að greina frá meintum fjárdrætti afgreiðslufólks í matvöruverslunum, telji ekki vera neitt fréttnæmt við ásakanir um bókhaldsóreiðu og misnotkun fjár hjá stjórnmálaflokki?