Þriðjudagur 22. september 1998

265. tbl. 2. árg.

Eins og menn vita heyja foringjar íslenskra vinstri manna stríð sín bæði hér á landi og annars staðar. Því miður átta erlendir fréttamenn sig ekki alltaf á þeirri staðreynd. Víða erlendis er jafnvel talið að menn eins og Lionel Jospin og Anthony Blair hafi séu helstu sigurvegarar síðustu þingkosninga í Frakklandi og Bretlandi. Íslenskir fjölmiðlamenn hafa hins vegar litið svo á að hinir raunverulegu sigurvegarar þeirra séu íslenskir vinstri menn. Eru jafnan tekin viðhafnarviðtöl við íslenska sósíalista þegar vinstri mönnum gengur vel erlendis. Þegar Verkamannaflokkur Blairs sigraði í síðustu þingkosningum í Bretlandi héldu íslenskir vinstri menn sigurhátíð á Rauða ljóninu og DV birti litmynd á baksíðu af Össuri Skarphéðinssyni og Merði Árnasyni með kampavín í glasi. Vefþjóðviljinn efast ekki um að þessar íslensku fréttaskýringar eru sannleikanum samkvæmar. Þess vegna finnur hann til  með íslenskum krötum þessa dagana. Þeim gekk nefnilega ekki nógu vel í Svíþjóð núna á sunnudaginn. Sighvatur og Össur töpuðu þar þrjátíu af þingmönnum sínum og hafa ekki fengið verri útreið í áttatíu ár.

Össur Skarphéðinsson er öllum stundum í fjölmiðlum. Hann var til dæmis mjög áberandi í allri umræðu um samfylkingu vinstri manna áður en „málefnaplaggið“ alræmda var kynnt. Var engu líkara en Össur væri faðir, sonur og heilagur andi samfylkingarinnar. Eftir að innihald plaggsins kom í ljós og hlegið var um land allt hefur Össur hins vegar ekki sést í fjölmiðlum. Hafa Margrét Frímannsdóttir og Sighvatur Björgvinsson mátt verja plaggið án liðsinnis Össurar.

Vafalaust þykir einhverjum sem þesssi framkoma Össurar beri vott um takmarkaða hugdirfsku. Þegar á móti blæs sé leitað í skjól. VÞ metur það svo sem ekki en leyfir sér að benda á að sá kafli málefnaplaggsins sem kitlaði flestar hláturtaugar var kafli um utanríkis- og varnarmál. Ekki er ólíklegt að leitað hafi verið til fulltrúa samfylkingarinnar í utanaríkismálanefnd Alþingis um góð ráð þegar sá kafli var barinn saman. En fulltrúður samfylkingarinnar í utanríkismálanefndinni heitir víst Össur Skarphéðinsson.