Mánudagur 21. september 1998

264. tbl. 2. árg.

Á vegum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefur verið gerð könnun á viðhorfi nýnema til arðsemi námsins sem þeir hafa valið sér. Ánægjulegt er að sjá að meirihluti nýnema í öllum deildum telur samkvæmt könnuninni að námið sé hagkvæm fjárfesting. Það kemur hins vegar á óvart að þvert á þessa skoðun nemanna telja þeir að stuðningur ríkisins við háskólanema ætti að vera meiri en nú er. En það þarf svo sem líklega ekki að koma á óvart að tiltekinn hópur fólks í þjóðfélaginu telji að aðrir hópar eigi að gefa honum peninga. Fólk hefur yfirleitt tilhneigingu til að líta á þrönga sérhagsmuni sína þegar afstaða er tekin til slíkra hluta.

Þessi könnun ætti þó að verða til þess að skilningur á því aukist að fólk fer í háskóla fyrir sjálft sig en ekki aðra og ætti því sjálft að standa straum af kostnaðinum. Í því sambandi breytir engu þótt námið hafi jákvæðar hliðarverkanir fyrir aðra og komi sér vel fyrir þjóðfélagið í heild. Ef þau rök væru látin ráða ætti „þjóðfélagið“ að styrkja flesta við þá vinnu sem þeir stunda, enda eru störf manna yfirleitt hagkvæm. Þá gætu allir styrkt alla í gegnum enn umsvifameira ríkisbákn en þó er til staðar og flestum þykir nóg um.

Talsmaður svokallaðrar „Grósku“, samtaka ungra framagjarnra vinstri manna, Björgvin G. Sigurðsson, sagði um daginn í útvarpsviðtali að rétt væri að hækka hér útgjöld til menntamála um 2% til að við eyddum ekki minnu en einhverjar aðrar þjóðir. Honum láðist að vísu að láta þess getið um leið að þessi snjalla hugmynd þessara vinstri manna mundi þýða skattahækkanir upp á litla 10 milljarða króna á ári, eða um 150.000 krónur fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þeir sem þurfa að losna við slíka upphæð geta út af fyrir sig stutt þennan félagsskap, en þó væri æskilegra að þeir sýndu samborgurum sínum þá tillitssemi að neyða ekki sömu útgjaldaaukningu upp á þá.

En vinstri menn láta sér þetta ekki nægja, heldur skella nokkrum dögum síðar framan í þjóðina stefnuskrá sinni, sem mun kosta tugi milljarða króna komist hún til framkvæmda. Sighvatur Björgvinsson krataleiðtogi reynir að gera lítið úr þessu og lætur að því liggja að þetta séu bara hugmyndir til framtíðar og ekki eigi að eyða öllu þessu á næsta kjörtímabili. Kristinn H. Gunnarsson Alþýðubandalagsmaður fer þó ekki í launkofa með að í málefnaskránni felist kostnaður upp á milljónatugi og að framkvæmd hennar þýði ekkert annað en skattahækkanir.

Foringi Kristins, Margrét Frímannsdóttir, segir um tillögur verðandi sambræðings brota Alþýðuflokks, Kvennalista og Alþýðubandalags: „Það er vissulega gert ráð fyrir nýjum útgjöldum en einnig nýjum tekjum.“ Þá vita menn það. Sambræðingurinn ætlar ekki aðeins að taka upp kaldastríðsstefnu Allaballa í utanríkismálum heldur ætlar hann „vissulega“ að auka útgjöld og hækka skatta. „Vissulega“!