Helgarsprokið 20. september 1998

263. tbl. 2. árg.

fdr.gif (35950 bytes)
fdr.gif (35950 bytes)

Þeir sem gengið hafa í íslenskan skóla hafa líklega ekki farið varhluta af kenningum íslenska skólakerfisins um kreppuna miklu á fyrri hluta aldarinnar. Skólakerfið heldur gagnrýnislítið fram gömlum kenningum ríkisafskiptasinna um að orsakir hennar eigi rætur sínar að rekja til galla markaðshagkerfisins og að það sem helst hafi komið til bjargar í kreppunni hafi verið aukin ríkisafskipti Franklins D. Roosevelts Bandaríkjaforseta, sem hann kallaði New Deal, og seinni heimsstyrjöldin. Það er út af fyrir sig ekkert við því að segja ef menn halda fram slíkum skoðunum – menn mega hafa rangt fyrir sér – en þegar slíku er kerfisbundið haldið fram í skólakerfinu og ekki er boðið upp á aðra hlið málsins er hætt við að slíkt flokkist frekar undir áróður en uppfræðslu.

Í nýjasta tölublaði tímaritsins The Economist er fjallað nokkuð ítarlega um kreppuna, orsakir hennar og ranghugmyndir sem henni tengjast. Þar kemur fram að engin sátt sé um kenningar um kreppuna á meðal hagfræðinga, en þó sé næg þekking fyrir hendi til að hafna þjóðsögunni, sem gengur út á að kreppan hafi byrjað með verðbréfahruni á Wall Street í október 1929, að efnahagslægðin hafi orðið viðvarandi vegna þess að þeir sem mótuðu stefnuna hafa setið aðgerðalausir og að það hafi þurft Roosevelt með New Deal sem boðbera upplýstra ríkisafskipta til að koma skikki á hlutina. Í stuttu máli megi segja að kreppan hafi ekki hafist með verðbréfahruninu, að þeir sem mörkuðu stefnuna hafi ekki verið hlutlausir heldur gripið inn í með röngum aðgerðum og að þegar á allt sé litið hafi New Deal alls ekki orðið til að ljúka kreppunni, sú stefna hafi líklega lengt hana.

reserve.gif (12523 bytes)
reserve.gif (12523 bytes)

Tímaritið segir frá því að í upphafi árs 1928 hafi Seðlabanki Bandaríkjanna hækkað vexti af ótta við spákaupmennsku og hækkandi hlutabréfaverð. Um vorið 1929 hafi iðnframleiðsla minnkað og vöxtur almennt verið orðinn neikvæður um sumarið. Kreppan var þá byrjuð. Tveimur mánuðum fyrir hrunið mun iðnframleiðsla hafa fallið um 20% á ársgrundvelli. Þegar hrunið kom var það afar mikið og á tæpum mánuði frá október til nóvember 1929 hafði verðbréfamarkaðurinn lækkað um helming. Að sögn The Economist stefndi á þessum tíma í slæman samdrátt, en ekki þá áratugarlöngu og miklu kreppu sem raun varð á. Lykilspurningin sé hvers vegna ástandið hafi orðið svo slæmt, bæði í Bandaríkjunum og öðrum löndum.

Flest lönd voru á gullfæti árið 1929, sem þýðir að peningarnir voru tryggðir með gullinnistæðu í seðlabönkum ólíkt því sem nú er. Það kerfi hefði átt að hjálpa til við að koma stöðugleika á aftur, en yfirvöld gripu inn í og takmörkuðu peningamagn í umferð. Næstu mistök sem hið opinbera gerði bæði í Bandaríkjunum og annars staðar var að setja hömlur á milliríkjaverslun. Það gerði ekkert nema skaða iðnaðinn en létti ekki á þeim peningaskorti sem ríkti.

Enn átti ástandið eftir að versna þegar gjaldþrot banka hófust árið 1930. Að sögn The Economist hefði Seðlabankinn getað komið í veg fyrir að þau yrðu jafn mikil og þau urðu með því að sjá bönkunum fyrir lausafé, en vísvitandi gerði hann það ekki. Á þremur árum höfðu yfir 11.000 af 25.000 bönkum í Bandaríkjunum farið á hausinn. Áður en Seðlabankinn var stofnaður árið 1913 höfðu bankarnir leyst lausafjárvandamál (þau geta skapast í bönkum þegar margir ætla að taka út innistæður sínar í einu) sín á milli, en nú var það kerfi varla fyrir hendi lengur og þeir treystu á Seðlabankann.

The Economist segir stefnuna í ríkisfjármálum hafa verið litlu betri en þá sem rekin var í peningamálum. Skattar hafi verið hækkaðir til að jafna fjárlagahallann, en það hafi komið illa við fyrirtækin. Í ofanálag hafi Roosevelt reynt að koma í veg fyrir „óhóflega samkeppni“, settar hafi verið upp verðlagshömlur og aðrar reglugerðir sem þvældust fyrir atvinnulífinu.

Árið 1935 mun hagkerfið hafa verið að jafna sig, en atvinnuleysi hafði haldist hátt, að hluta til vegna New Deal stefnunnar að sögn tímaritsins. 1937-38 þurfti efnahagslífið aftur að þola samdrátt og það var ekki fyrr en stríðið skall á sem takmarkið um fulla atvinna náðist í Bandaríkjunum.

Þessi frásögn hér að ofan er töluvert á annan veg en sú söguskoðun sem haldið er að nemendum framhaldsskólanna. Hvort kennarar munu halda áfram að halda fram kreddu um kreppu er ekki gott að segja. Þó má fullyrða að bæði þeir sem greiða fyrir menntunina og hinir sem eru að nýta sér hana, eiga heimtingu á því að sögukennsla sé frekar upplýsandi en áróðurskennd og að nemendur fái eðlilega mynd af þeim atburðum sem verið er að fjalla um hverju sinni.