Þriðjudagur 15. september 1998

258. tbl. 2. árg.

Í síðustu viku kom fram að borgarráð Reykjavíkur hefði ákveðið að veita Samtökunum ‘78 níu milljóna króna fjárstuðning til að kaupa 4. hæð Laugavegar 3 af Sigfúsarsjóði, sem er sjálfseignarstofnun í nánum tengslum við Alþýðubandalagið. Um þetta mál var fjallað í Vef-Þjóðviljanum og Morgunblaðinu, en aðrir fjölmiðlar sáu ekki ástæðu til að greina frá því. Er þessi þögn með ólíkindum, enda lyktar málið óvenju illa af pólitískri fyrirgreiðslu og misnotkun á almannafé. Má t.d. telja með ólíkindum, að hið frjálsa og óháða DV skuli ekki hafa tekið á málinu, en spyrja má hvernig blaðið hefði brugðist við ef aðstæður hefðu verið með þeim hætti, að meirihluti sjálfstæðismanna í borgarstjórn hefði ákveðið að styrkja félag úti í bæ til að kaupa húseign af sjálfseignarstofnun, sem skipulagslega lyti forræði miðstjórnar Sjálfstæðisflokksins.

Til þess að átta sig nánar á tengslum Sigfúsarsjóðs og Alþýðubandalagsins er rétt að rifja upp, að sjóðurinn var stofnaður   eftir lát Sigfúsar Sigurhjartarsonar, þingmanns Sósíalistaflokksins og ritstjóra Þjóðviljans, árið 1952. Tilgangi sjóðsins er svo lýst í  skipulagsskrá: „Tilgangur sjóðsins er að reisa og reka samkomuhús og starfsmiðstöð fyrir íslenska alþýðu og flokk hennar, Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokkinn – og sé húsið helgað minningu Sigfúsar Sigurhjartarsonar, og beri nafn hans.“

Um stjórn sjóðsins segir:
„Stjórn sjóðsins skal skipuð 9 mönnum, sem kosnir eru af miðstjórn Sameiningarflokks alþýðu – Sósíalistaflokksins – til tveggja ára í senn.“
Einnig kemur fram að reikningar skuli endurskoðaðir af tveim mönnum, kjörnum af miðstjórn Sósíalistaflokksins og loks að miðstjórn flokksins geti ein breytt skipulagsskránni.

Skipulagsskránni var breytt árið 1968 af miðstjórn Sósíalistaflokksins. Það ár var flokkurinn lagður niður og Alþýðubandalagið stofnað formlega sem stjórnmálaflokkur, en þá hafði það verið starfrækt sem kosningabandalag frá 1956. Framangreindum  ákvæðum var þá breytt á þann að tekið var fram að sjóðurinn skyldi reisa og reka húsnæði fyrir Sósíalistaflokkinn „eða hvern þann sósíalistískan fjöldaflokk, sem tekur við hlutverki hans að dómi sjóðstjórnar, eða að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi á annan hátt.“ Hefur þetta verið túlkað svo, að Alþýðubandalagið hafi tekið við hlutverkinu og hafa flokksstofnanir Alþýðubandalagsins kosið stjórnarmenn síðan.

Breytingarnar 1968 fela ekki aðeins í sér að sjóðstjórn hefur svigrúm til að verja fé sjóðsins til að „reisa og reka“ húsnæði fyrir einhvern annan „sósíalistískan“ flokk en Alþýðubandalagið. Sjóðstjórnin hefur líka svigrúm til að ráðstafa þessum fjármunum til „að vinna að framgangi sósíalismans á Íslandi á annan hátt.“ Í ljósi þess að hér er um umtalsverða fjármuni að ræða geta ákvarðanir sjóðstjórnarinnar á næstu vikum og mánuðum haft veruleg áhrif á starf Alþýðubandalagsins og hugsanlega annarra aðila, sem nú hafa ákveðið að hefja á loft merki sósíalismans utan Alþýðubandalagsins. Skiptir ekki síst máli í þessu  sambandi, að Alþýðubandalagið er sem kunnugt er stórskuldugt og eru skuldir þess taldar nema rúmlega 50 milljónum króna (og eru þá gömlu Þjóðviljaskuldirnar löngu afskrifaðar). Skuldheimtumenn flokksins geta hins vegar ekki gengið að þessu fé meðan það er bundið í eignum Sigfúsarsjóðs og er ljóst að Alþýðubandalagsmenn kunna manna best að hafa skuldir sínar á einni kennitölu og eignirnar á annarri. Enn fremur eru þeir sérfræðingar í að láta stórskuldug félög fara í gjaldþrot og stofna ný á rústunum.