Mánudagur 14. september 1998

257. tbl. 2. árg.

Það er leiðinlegt hve mörgum getur lengi skjátlast mikið um það sem máli skiptir í samtímanum. Sem dæmi má nefna að undanfarin ár hafa fjölmargir haldið að Ronald Reagan fyrrverandi Bandaríkjaforseti hafi haft mikil áhrif á lok hins svokallaða kalda stríðs. Einörð

reagan.jpg (8188 bytes)
reagan.jpg (8188 bytes)

afstaða hans til   Sovétstjórnarinnar, stuðningur hans við lýðræðisöfl Austur-Evrópu og öflug uppbygging varna Vesturlanda hafi verið meira en Kremlverjar réðu við þegar við bættust þeir efnahagserfiðleikar sem vænta má í miðstýrðu hagkerfi. Þess vegna hafi tilraunir Gorbatsjovs til að standa vörð um Sovétríkin og kommúnismann á endanum farið út um þúfur. Þessi skoðun hefur verið afar útbreidd, ekki síst eftir að fræðimenn hafa fengið ráðrúm til að líta til baka og skjalasöfn hafa verið opnuð. Meðal þeirra sem haldið hefur þetta er Lech Walesa, sem leiddi frelsisbaráttu Pólverja í fimmtán ár og varð forseti þeirra að loknum valdatíma kommúnista. Hann flutti erindi um arfleið Reagans fyrir nokkrum misserum. Niðurstaða Walesa var einföld: „We Poles owe him freedom“.

En allt hefur þetta verið á misskilningi byggt. Föstudaginn 11. september leit Ármann Jakobsson íslenskufræðingur upp úr rannsóknum sínum á Morkinskinnu og kvað upp eftirfarandi úrskurð: „Raunar hafa repúblikanar í Bandaríkjunum og á Íslandi reynt að halda því fram að  kalda stríðið hafi verið í kábojamynd og Ronald Reagan hafi „unnið“ það, þó allir aðrir viti að ef Gorbatsjov hefði ekki orðið leiðtogi Sovétríkjanna væri annaðhvort ískalt stríð í heiminum nú – eða ekkert fólk.“ Úrskurður Ármanns birtist í grein í DV þar sem Ármann fullyrðir að forsetar Bandaríkjanna hafi engin áhrif og því sem næst engin völd og þeirra verði einungis minnst fyrir konurnar sem þeir hafi sofið hjá (og mun þar ekki átt við forsetafrúrnar). Þó Ármann segi það ekki algerlega  hreint út á hann við að ekki hafi nokkru skipt hver var forseti Bandaríkjanna á níunda áratugnum og þaðan af síður hafi skipt máli hvað þessi forseti gerði eða gerði ekki.

Þeir sem muna lengur en hálftíma aftur í tímann muna vel eftir þeirri fæð sem íslenskir vinstri menn lögðu á Ronald Reagan í valdatíð hans. Var þeim mikil skapraun af því að Reagan var fastur fyrir þegar Sovétmenn og ýmsar „friðarhreyfingar“ kröfðust þess að Vesturlönd veiktu varnir sínar. Hafa þeir allar götur síðan reynt að gera eins lítið úr Reagan og þeir hafa frekast mátt. Hafa því fylgt ýmsar fullyrðingar um stjórnartíð Reagans og er sannleiksgildi margra þeirra ærið vafasamt (sjá VÞ 6. feb. 1998).  Þessir vinstri menn hljóta að fagna þeirri niðurstöðu Ármanns að Reagan hafi engu áorkað í utanríkismálum. Að sama skapi hlýtur grein Ármanns að vera öðrum mönnum, eins og til dæmis Lech Walesa, sár vonbrigði: Nú er opinbert að þeir vita ekkert um það hvað skipti máli í frelsisbaráttu Austur-Evrópubúa. Fáfræði þeirra er lýðum ljós. Ármann Jakobsson hefur talað.