Helgarsprokið 13. september 1998

256. tbl. 2. árg.

Nýr aðalstjórnandi hefur tekið við Sinfóníuhljómsveit Íslands og er ástæða til að binda miklar vonir við starf hans, enda er ljóst hér er um að ræða metnaðarfullan listamann með mikla starfsreynslu. Hljómsveitarstjórinn, Rico Saccani, lýsir ýmsum sjónarmiðum sínum í viðtali í Morgunblaðinu sl. fimmtudag og má þar meðal annars finna athyglisverðar vangaveltur hans um kostun fyrirtækja á menningarviðburðum og umsvif ríkisins í þessum efnum.
    
Í upphafi lýsir Saccani því sem einum helsta veikleika í starfi Sinfóníuhljómsveitarinnar að landsmenn taki starfsemi hennar sem sjálfsögðum hlut og að þeir hafi takmarkaðan áhuga á að styðja við bakið á henni. Bendir hann sérstaklega á að aðilar í viðskiptalífinu hafi ekki staðið sig í stykkinu í þessum efnum heldur finnist sjálfsagt að stjórnvöld standi straum af kostnaði við reksturinn. Hann segir það með ólíkindum að metnaðarfull fyrirtæki skuli ekki sjá hag sinn í að veita fé til hljómsveitarinnar og fullyrðir að Íslendingar séu að dragast aftur úr samanburðarlöndunum að þessu leyti.
    
Saccani gerir síðan grein fyrir þróuninni í ýmsum löndum og segir meðal annars: „Staðreynd málsins er sú að víðsvegar um heim, einkum í Evrópu, eru stjórnvöld að draga markvisst úr stuðningi sínum við stofnanir á listasviðinu. Á Ítalíu hafa til dæmis verið samþykkt lög þess efnis að frá og með næsta ári skuli þrettán stærstu óperuhús landsins vera rekin að hálfu leyti af einkaaðilum. Þýsk stjórnvöld hafa líka verið að draga markvisst úr menningarumsvifum sínum – hafa lækkað kostnað sinn af rekstri leikhúsa og hljómsveita 25% á tveimur árum til að rýma fyrir einkareknum fyrirtækjum. Meira að segja í Ungverjalandi og Tékklandi er þessi rekstur í auknum mæli að færast yfir á hendur einkaaðila. Í ungversku ríkisóperunni er sá háttur hafður á að nýtt fyrirtæki kostar sýningar í viku hverri. Bílaframleiðandinn Ford var til dæmis kostunaraðili vikunnar síðast þegar ég var þar og þá varð ekki þverfótað fyrir bifreiðum fyrir framan húsið, þannig að kostunin tekur á sig ýmsar myndir.“
    
Aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar furðar sig á því að þetta sjónarmið skuli ekki enn hafa skotið upp kollinum á Íslandi og segir: „Kostun verður að ryðja sér til rúms í íslensku menningarlífi hið fyrsta, ætli landið sér ekki að dragast enn frekar aftur úr. Mér er kunnugt um smæð samfélagsins og takmarkaðan fjölda fyrirtækja sem eru aflögufær en það breytir ekki því að fyrirtæki eiga að bíða í röðum eftir að fá að kosta áskriftartónleika hjá Sinfóníunni. Ef SÍ væri starfrækt í Bandaríkjunum eða Japan myndu fyrirtæki slást um að hengja nafnplötur sínar upp í tónleikasalnum.“
    
Hér er um að ræða skynsamleg sjónarmið hjá hljómsveitarstjóranum. Af þessum athugasemdum hans má sjá að hann hefur til að bera það raunsæi, að átta sig á því að draga mun úr umsvifum hins opinbera á þessu sviði á komandi árum. Hann nálgast hugmyndir um kostun fyrirtækja á menningarviðburðum með jákvæðum og fordómalausum hætti, ólíkt því sem oft má heyra dæmi um hér á landi. Í þriðja lagi kemur líka skýrt fram, að hann gerir sér grein fyrir því að öflugt listalíf getur verið fyrir hendi án þess að ríkissjóður borgi brúsann.
    
Ýmsir hópar hér á landi ættu sérstaklega að taka þessi ummæli Rico Saccani til umhugsunar. Í fyrsta lagi ættu ýmsir listamenn að leggja við hlustir, enda virðast þeir sumir telja opinber framlög eina mögulega úrræðið til að þeir geti stundað list sína. Þá ættu þeir einnig að velta kostunarmöguleikum fyrir sér í auknum mæli, en slíkt hefur löngum verið mikið feimnismál hér í þeirra hópi. Í annan stað eiga ummæli Saccanis erindi til þeirra stjórnmálamanna, sem sífellt tönnlast á því að auka beri opinber framlög til menningarstarfsemi. Þeir verða átta sig á því að aðrar leiðir eru færar, og víða erlendis er verið að prófa nýja og spennandi möguleika í því sambandi. Í þriðja lagi eru orð hljómsveitarstjórans holl áminning til stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Sumir úr þeim hópi hafa að vísu sýnt listastarfsemi velvild á undanförnum árum og jafnframt áttað sig á möguleikum kostunar í sambandi við markaðssetningu fyrirtækja sinna. Þessi hópur stjórnenda er hins vegar allt of fámennur og kostun menningarviðburða er þannig stórlega vannýttur möguleiki hér á landi.