Miðvikudagur 16. september 1998

259. tbl. 2. árg.

Á leið um borgarkerfið er nú tillaga um að laga til í Nauthólsvík, setja upp heita potta, búningsklefa og tilheyrandi, að ógleymdu ylvolgu lóni með baðströnd. Tillaga þessi hefur verið nákvæmlega útfærð af arkitektum og skipulagsfræðingum borgarinnar. Jafnvel er búið að skjóta á að herlegheitin kosti um 160 milljónir króna sem er nú ekki mikið þegar haft er í huga að R-listinn gagnrýndi ekki skuldastöðu borgarinnar fyrir síðustu kosningar heldur aðeins þarsíðustu en skuldirnar jukust reyndar óvart á milli kosninga. Ekki er heldur von að borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna þyki þessar 160 milljónir tiltökumál enda gagnrýndu þeir ekki skuldir borgarinnar fyrr en R-listinn tók að bæta við þær. Eitt smálegt vantar þó í þessa tillögu um Nauthólsvíkina. Hvað kostar að reka aðstöðuna. Á því hefur enginn í borgarkerfinu áhuga!

Á sunnudag hélt félag áhugamanna um frama nokkurra ungra vinstri manna, „Gjóska“ svokallað málþing um „100 fyrstu daga ríkisstjórnar jafnaðarmanna“. Málþingið var auglýst vandlega enda mættu áhugamennirnir um málefnið allir átján. Er Ágúst Einarsson þá talinn með.