Á morgun sunnudag verður líf og fjör á Hveravöllum. Þá verður afhjúpaður þar minnisvarði sem nefndur er Fangar frelsisins og er til minnis um þau Eyvind Jónsson og Höllu Jónsdóttur. Um þau hafa spunnist margar sögur og þjóðþekkt leikrit gerð eftir sumum þeirra. Munu fáir þeir Íslendingar sem aldrei hafa heyrt rómantískar sögur um þau Fjalla-Eyvind og Höllu og í huga margra eru þau tákn elskenda sem þolað hafa útlegð og ofsóknir fyrir ást sína. Dagskráin á Hveravöllum verður að vonum öll hin glæsilegasta. Þar mun �?mar Ragnarsson flytja erindi sem hann nefnir Ást í auðninni, Guðni Ágústsson flytur ávarp og margt fleira verður til skemmtunar.
Ekki veit Vef-Þjóðviljinn hvaða heimildir �?mar Ragnarsson styðst helst við í erindi sínu en hann leyfir sér að benda �?mari á eina. Í Degi-Tímanum 9. nóvember 1996 skrifaði Oddur �?lafsson aðstoðarritstjóri grein sem hann nefndi Tukthúslimur við kirkjusmíði. Segir þar meðal annars:
Sigurður �?lason, lögfræðingur, var áhugamaður um sögu og ritaði sitthvað um þau fræði og voru efnistök hans oft ólík því sem aðrir skrifuðu. Hann sagði undirrituðum, að hann hafi fundið málsskjöl þar sem Höllu var lýst og skýrt frá eiginlegri ástæðu þess að hún og Eyvindur voru á fjöllum. Samkvæmt frásögn Sigurðar var Halla ófríð kona og skass. Eins og öðrum frásögnum og skáldverkum ber saman um, var hún vel efnuð og lagði hún mikla ást á ungan vinnumann sinn. Atlot hennar og atgangur voru með þeim ósköpum, að pilturinn hljóp á fjöll fremur en að búa við ofurástir húsfreyju. En Halla gerði sér lítið fyrir og fór á eftir honum og sagði Eyvindi, en svo hét vinnumaður, að hún myndi aldrei yfirgefa hann í þessu lífi. Hún byggði með honum óbyggðir og losnaði Eyvindur aldrei við hana. Útilega hans var því í raun flótti undan Höllu, en hún gaf sig hvergi og deildi með honum súru og köldu uppi á öræfum.