Einhverra hluta vegna hafa starfsmenn Ríkisútvarpsins feiknarlegan áhuga á öllu því sem snertir opinbera starfsmenn. Því miður halda þeir að annað fólk hafi þennan sama áhuga og þeir. Þeir sem fylgjast með fréttum ríkisfjölmiðlanna fá því oft á tilfinninguna að heimurinn snúist um kjör opinberra starfsmanna, aðstöðu þeirra og réttindi, að ekki sé minnst á pólitískar skoðanir forsvarsmanna þeirra. Í gær var eitt málefni fyrirferðarmest í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins: Enn ein starfsstéttin á ríkisspítölunum er nú að segja upp og ræddu fréttamenn það mál fram og til baka. Langar og miklar hugleiðingar fylgdu um orsakir og afleiðingar slíkra atburða og stefnir sjálfsagt í neyðarástand eins og í hvert skipti sem opinberir starfsmenn kveinka sér. Enda hljómar þetta ekki vel: Næstum heil stétt ríkisspítalanna að hætta, langir fréttatímar um málið og neyðarástand yfirvofandi. Menn myndu ætla að nú stefndi í að spítölum yrði lokað og veikt fólk dæi drottni sínum heima hjá sér án þess að nokkuð væri hægt að gera því til bjargar. En þá spyr kannske einhver: Hverjir eru að hætta? Jú, þeir sem vinna á bókasafninu. Jæja já, og hvað hafa margir sagt upp? Þeir eru þrír.
Föstudagur 7. ágúst 1998
219. tbl. 2. árg.