Fyrir tíu árum bar vísindamaður frá NASA, James Hansen, vitni fyrir bandarískri þingnefnd þar sem hann hélt því fram að útblástur af manna völdum hefði mikil áhrif á hitastig á jörðinni. Líkan sem Hansen gerði spáði fyrir um að hiti mundi hækka um 0,45°C á árunum 1988 til 1997. Eins og sést á myndinni hér að neðan sýna mælingar sem gerðar hafa verið allt aðra þróun. Mælingar gerðar á jörðu niðri sýna hækkun upp á 0,11°C, sem er ekki nema fjórðungur þess sem líkanið spáði, en enn athyglisverðara er að mælingar veðurbelgja sýna 0,36°C lækkun hita og gervihnattamælingar (sem eru álitnar bestu mælingarnar) sýna að hiti hefur lækkað um 0,24°C á þessu tímabili.
Þetta kemur fram í vitnisburði Patrick J. Michaels, prófessors í umhverfisfræðum, fyrir bandarískri þingnefnd nú í lok júlí. Í vitnisburðinum kemur einnig fram að margar nýjar upplýsingar hafi verið að koma fram sem styðji málflutning þeirra sem hafa haldið því fram að rétt væri að fara varlega í að trúa spálíkönum þeim sem höfð eru til hliðsjónar þegar samningar á borð við þann sem ræddur var í Kyoto eru gerðir. Þar má t.d. nefna að koltvísýringur aukist minna en jafnvel varfærnustu spár gerðu ráð fyrir vegna vaxandi gróðurs og að áhrif koltvísýrings hafi auk þess verið ofmetin hingað til. Þetta skiptir auðvitað meginmáli, því áhyggjur af koltvísýringi hafa verið driffjöðurin í loftslagsumræðunni. Annað sem nefna má er, að ólíkt því sem svo oft er haldið fram þá hafa sveiflurnar og öfgarnar í veðrinu ekki aukist á seinni árum, heldur minnkað ef eitthvað er.
Loks skal það nefnt sem tvímælalaust hlýtur að vera þeim umhugsunarefni sem fjalla um Kyoto samninginn, en það er að hann mun ekki hafa nein marktæk áhrif á loftslagið þótt eftir honum verði farið í einu og öllu. Þetta kann að hljóma fjarstæðukennt ef miðað er við þá umræðu sem verið hefur um samninginn, en þó sýna útreikningar sem gerðir hafa verið á þessu ári að hitastig á jörðinni um miðja næstu öld verður aðeins 0,07°C lægra en ella hefði orðið ef farið verður eftir samningnum. Séu niðurstöður nýjustu rannsókna hafðar til hliðsjónar verður þessi tala enn lægri, eða 0,04°C, en það skiptir svo sem litlu máli, því báðar tölurnar eru svo lágar að þær breyta engu og mælar greina vart svo litlar hitabreytingar. Ávinningurinn af samningnum er því samkvæmt þessu enginn.
Byrðarnar sem Kyoto samkomulagið leggur á jarðarbúa eru hins vegar verulegar, því það gerir ráð fyrir að víða verði dregið úr útblæstri um tugi prósenta. Sumir sjálfskipaðir talsmenn umhverfisins hafa reynt að halda fram að slík breyting skerði ekki lífskjör okkar, en það er vitaskuld fjarstæða enda sjá allir hvaða áhrif verðhækkun hefur á budduna þeirra.
Niðurstaðan er því sú að þótt þjóðir heims muni leggja á sig þær byrðar sem Kyoto samkomulaginu fylgja hefur það að líkindum engin marktæk áhrif á loftslag jarðarinnar. Í þessu ljósi mega það teljast undarlegar öfgar sumra manna að ætla að þröngva slíku samkomulagi upp á annað fólk.