Miðvikudagur 29. júlí 1998

210. tbl. 2. árg.
Það má sanna margt með skoðanakönnunum. Fyrir nokkrum árum stóð Flokkur mannsins fyrir einni slíkri, þar sem menn voru einfaldlega spurðir hvort þeir vildu breytingar í þjóðfélaginu. Þeir sem vildu einhverja breytingu skyldu segja já, hinir sem ekki vildu að nokkur hlutur breyttist, áttu að segja nei. Nokkru síðar tilkynnti Flokkur mannsins hróðugur að tæp 90% landsmanna ættu samleið með flokknum, enda berðist hann fyrir því „að breyta þjóðfélaginu“. Nú er búið að gera skoðanakönnun þar sem talsverður meirihluti svarenda sagðist ekki vera sáttur við aflamarkskerfið sem notað hefur verið í sjávarútvegi undanfarin ár. Margir andstæðingar aflamarkskerfisins kunna sér ekki læti og fara mikinn í tilefni af þessu. Verður að segja að þeir nota talsvert annað orðbragð en Flokkur mannsins gerði á sínum tíma og er sjálfsagt ekkert við því að segja enda hafa menn hlotið misjafnt uppeldi.

Undanfarnar vikur hafa andstæðingar aflamarkskerfisins hamast gegn því með gífuryrðum sem ekki höfðu tíðkast undanfarin ár í íslenskri umræðu og ekki var vitað til að margir hefðu saknað. Kerfið er sagt hafa lagt sjávarútveginn í rúst, stuðlað að of mikilli og of lítilli veiði, útgerð sé víðast hvar á heljarþröm og svo sé hagnaður í sjávarútvegi óþolandi mikill. Þá er kvartað yfir því að ekki geti hver sem er farið og veitt að vild, nú þurfi menn að „kaupa sig inn í eigin auðlind“!

Þegar svo hefur gengið linnulítið vikum saman er ekki furða þó margir segist ekki sáttir við aflamarkskerfið. Gaman hefði hins vegar verið ef spurt hefði verið: 1. Hefur hagur þinn af sjávarútvegi við Ísland versnað vegna aflamarkkerfisins? 2. Jæja já? Að hvaða leyti þá helst?
Þeim til huggunnar sem játa myndu fyrri spurningunni vegna þess að nú þurfi þeir að kaupa sér veiðileyfi til að geta hafið veiðar, má geta þess að áður hefðu þeir þurft að kaupa sér skip til slíks. Nema náttúrlega þeir hafi hugsað sér að synda út eftir fiskinum og ná honum á ferð. Eftir að aflamarkskerfið komst á hafa fiskiskipin sjálf hríðfallið í verði. Það gjald hafa útgerðarmenn þurft að greiða fyrir veiðiréttindin og minnir það enn á hvílík endaleysa upphrópunin um „gjafakvótann“ er.