Fimmtudagur 30. júlí 1998

211. tbl. 2. árg.

Geir H. Haarde fjármálaráðherra ritaði kjallaragrein um sjómannaafsláttinn svonefnda í DV í fyrradag.  Sjómannaafslátturinn er 1500 milljóna árlegur afsláttur af tekjuskatti til sjómanna. Auðvitað má einnig líta á sjómannaaflsáttinn sem niðurgreiðslu á launakostnaði útgerðarinnar. Geir bendir á í grein sinni að eðlilegast sé að útgerðin beri þennan kostnað. Líklegast er þó að væri aflsátturinn afnuminn yrðu sjómenn og útgerðin að skipta kostnaðinum á milli sín. Það getur vart talist eðlilegt að ríkið mismuni fólki skattalega eftir starfsvettvangi. Það er því auðvitað ánægjulegt að nýr fjármálaráðherra er þeirrar skoðunar  (eins og forveri hans í starfi) að sjómannaafslátturinn hljóti að víkja og raunar stingur hann upp á því í kjallaragreininni að það gerist á áföngum.

En hvað á þá að gera við milljónirnar 1500? Þær gætu til dæmis dugað til að lækka tekjuskattshlutfallið um 1% sem kæmi sér vel fyrir sjómenn sem aðra launamenn. Einnig mætti nota þær til að fella aðra augljósa mismunun í skattkerfinu, hátekjuskattinn svonefnda, niður en það kæmi sér vafalaust betur fyrir sjómenn en flestar aðrar starfsstéttir!

Fjármálaráðherrann var einnig spurður um sölu ríkisbankanna og annarra ríkisfyrirtækja í Morgunblaðinu í gær. Ráðherrann svaraði  stutt og laggott: „Því meira því betra.“ Minna þessi ummæli á fleyg ummæli Alberts Guðmundssonar fyrrum fjármálaráðherra sem gerði nokkurn skurk í sölu ríkisfyrirtækja á sínum  tíma: „Þetta má allt fjúka“.