Þriðjudagur 28. júlí 1998

209. tbl. 2. árg.

Á sunnudaginn varð ferðafólki það á, að aka sjö tonna þungum húsbíl sínum út fyrir veg við hverasvæði Kerlingarfjalla þar til hann sat þar fastur. Urðu áberandi för eftir hjól bifreiðarinnar og mikið svað þar sem hann festist. Þessi atburður varð fyrsta frétt allra ljósvakamiðla það sem eftir var dagsins. Tvennt í fréttaflutningum var athugavert: Í hvert einasta skipti hófst fréttin á því sem fréttamönnum þótti mikilvægast: Erlend  (Þjóðverjar í þokkabót) hjón ullu landspjöllum í dag, og svo  framvegis. Mikil áhersla var sem sagt lögð á að ferðamennirnir væru útlendingar. Maður nokkur sem kynntur var sem „staðarhaldari í  Kerlingarfjöllum“ sagði svo að sér þætti hábölvað ef útlendingar – en þó væru útlendingar velkomnir – gætu komið hér og ekið utan vega og skemmt og skemmt. Þá bar nokkuð á því, ekki síst hjá fréttaritara Ríkisjónvarpsins í óbyggðum, að vændlæting fréttamannanna væri óþarflega mikil.

Í fyrsta lagi verður að telja ólíklegt að svöðusárið við Kerlingarfjöll grói síður en ella þó við höfum ekki verið svo heppin að Íslendingar hafi borið ábyrgð á því. Það að útlendingar hafi ekið hlýtur að vera aukaatriði, að minnsta kosti frá sjónarhóli mosans. Einnig má ætlast til að fréttamenn láti persónulegar skoðanir sínar á atburðum liggja milli hluta. Þeir verða að fara sér hægt í að láta eigin viðhorf koma fram í fréttum, hvort sem það er gert með orðalagi, raddblæ, svipbrigðum eða með öðrum hætti.

Á síðasta ári var það nokkuð gagnrýnt, m.a. hér í VÞ, að Morgunblaðið ályktaði undarlega af skoðanakönnunum um afstöðu landsmanna til veiðileyfagjalds. Virtist blaðið m.a slá því upp að stór hluti sjómanna væri hlynntur veiðileyfagjaldi þótt ljóst mætti vera að aðeins 10 sjómenn hefðu lent í úrtaki könnunarinnar! Morgunblaðið tók ekki mark á þessari gagnrýni og birti um helgina stríðsfréttir þess efnis að sjómenn hefðu hina þessa afstöðu til sjávarútvegsmála samkvæmt nýlegri skoðanakönnun Gallups. Nú hefur Gallup hins vegar sent frá sér tilkynningu þar sem Morgunblaðinu er vinsamlegast bent á að sjómenn hafi aðeins verið um 2% úrtaksins í skoðanakönnununni og því engar forsendur fyrir víðtækum ályktunum um afstöðu þeirra.