Miðvikudagur 22. júlí 1998

203. tbl. 2. árg.

„Frelsið glatast sjaldan allt í einu,“ sagði skoski heimspekingurinn David Hume, en þau orð koma iðulega upp í hugann þegar Evrópusambandið ber á góma. Nýlega bannaði ESB tóbaksauglýsingar og bentu þá ýmsir á að slíkar reglur skertu tjáningarfrelsi manna og ættu því ekki rétt á sér, auk þess sem búast mætti við að fleiri ámóta bönn fylgdu í kjölfarið. Nú hefur komið á daginn að þessar aðvaranir voru ekki ástæðulausar, því innan ESB hafa komið upp hugmyndir um að banna eða takmarka verulega auglýsingar á ýmsum öðrum vörum.

Verði þessar hugmyndir að veruleika munu auglýsingar á vörum eins og bílum, áfengi, sælgæti, lyfseðilslausum lyfjum og leikföngum ekki verða heimilaðar nema hugsanlega með takmörkunum. Þetta sýnir vel hversu hættulegt er að gefa eftir þegar frelsi manna til athafna er annars vegar. Frjálslyndir menn halda stundum að ef þeir gefa dálítið eftir þá muni forsjárhyggjumennirnir láta staðar numið. Reynslan sýnir hins vegar að hvergi má hvika þegar frelsið er annars vegar. Ef hugmyndir á borð við þær að banna sælgætisauglýsingar verða að veruleika er farið að styttast ískyggilega í að menn þurfi að sækja um leyfi til að fá náðarsamlegast að bjóða góðan daginn.

Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, tók við sem forstjóri alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar WHO í gær. Að sögn mun Gro einkum beita sér í tveimur málum, gegn malaríu og reykingum. Það mun vart umdeilt að barátta gegn malaríu er góðra gjalda verð. Barátta gegn reykingum (sem m.a. á að felast í alheimsbanni á tóbaksauglýsingum) skýtur hins vegar skökku við þegar stofnun rekin fyrir skattfé er annars vegar. Fólk velur það nefnilega sjálft hvort það reykir eður ei. Rétt eins og menn velja allskyns óhollustu í innkaupakörfuna á matvörubúðinni þá reykja sumir sér til ánægju. Ofaníkaupið kjósa sumir jafnvel að vera kyrrsetumenn í stað þess að stæla kroppinn með reglulegum æfingum. (Gro þarf vart að leita lengi að fórnarlambi ofáts og kyrrsetu.) Verður þess því væntanlega skammt að bíða að Gro boði alheimsbann við auglýsingum á sætindum og hægindastólum.