Þriðjudagur 21. júlí 1998

202. tbl. 2. árg.

Steingrímur J. Sigfússon þingmaður á að hafa framsögu á fundi hjá Alþýðubandalagsfélagi Reykjavíkur nú í vikunni. Á fundinum á að ræða, jú mikið rétt, sameiningu vinstri manna. Í ljósi þess að ýmsir sameiningarsinnar leggja mikið upp úr tali um lýðræði varð vafalaust ýmsum hverft við að heyra í Helga Hjörvar í útvarpsfréttum á sunnudagskvöldið. Þar taldi hann ýmis tormerki á því að Steingrímur fengi að tala á fundum hjá ABR. Í sama streng tók annar sameiningarsinni, Bryndís Hlöðversdóttir á Bylgjunni í gær en þótti hins vegar sjálfsagt að Sverrir Hermannsson læsi ungum allaböllum pistilinn á fundi nú um helgina.
Var þetta ekki einhvern veginn svona: Við teljum að rétt sé og sjálfsagt að leyfa engar umræður nema á grundvelli sameiningar…?

Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi mátti sjá nokkra lukkulega borgarbúa taka við styrkjum frá borginni til að gera við hús sín. Styrkirnir (sem námu allt að 800 þúsundum króna hver) eru veittir á þeirri forsendu að viðkomandi einstaklingar séu að dytta að gömlum húsum sínum (enda þarf lítið að dytta að nýlegum húsum!). Má furðu sæta að enginn borgarfulltrúi hafi uppburði í sér til að andmæla því að skattar séu lagðir á borgarbúa til að veita nokkrum útvöldum styrki til að laga til heima hjá sér. Þetta mál sýnir í hnotskurn að vart var kosið um nokkurn skapaðan hlut í borgarstjórnarkosningunum í vor. Gæti kjörstjórn ekki kannað möguleika á að bjóða upp á sjálfval eins og í lóttóinu?