Eins og menn vita, er Alþýðubandalagið að verða að einskonar auka-flokki í fjölbreytilegri flóru sameinaðra vinstri flokka. Verður ógæfu flokksins nú allt að vopni. Þingflokkurinn meira og minna óháður flokknum, heil og hálf flokksfélög eru hætt og farin, stefnuskráin allt í einu orðin önnur samkvæmt ákvörðun Alþýðuflokksins og ungliðarnir hættir að dýrka Che en sitja nú og glósa þegar Sverrir Hermannsson heldur fyrirlestra. Á sama tíma telur formaður flokksins sig vera að vinna stórsigra og fer í fundaherferð um Kópasker af því tilefni. Það er því vel við hæfi að flokkurinn og þau flokksfélög sem eftir eru, séu hætt að halda landsfundi og láti aukalandsfundi nægja. Í gær sýndu tvær sjónvarpsstöðvar frá „aukalandsfundi Verðandi“ enda stórviðburður á ferð. Mikilvægi fundarins sést líklega best á því hve vel var mætt á fundinn. Í sjónvarpi sást ekki betur en í fundarsal væru samtals níu – en þá eru fjölmiðlamenn taldir með eins og gefur að skilja.
Á dögunum var Friðrik Sophusson ráðinn forstjóri Landsvirkjunar. Ekki hafa margir treyst sér til að halda fram að hann sé ekki vel til starfsins fallinn, en þess í stað hafa sjálfumglaðir fjölmiðlamenn reynt að hrópa sem hæst og oftast: „Sagði ég ekki?“. Og er það vissulega rétt að undanfarið höfðu margir spáð því að Friðrik yrði fyrir valinu. Því verður þó ekki neitað, að sjálfshrós fjölmiðlamannanna yrði maklegra ef þeir endurtækju alla hina spádómana sem þeir hafa verið með undanfarin ár, varðandi störf Friðriks. Til dæmis fullyrtu ýmsir þeir sem hæst láta nú, árum saman að „samkvæmt traustum heimildum“ væri búið að ráða Friðrik sem sendiherra hér og þar, oftast í París, og svo mætti áfram telja.
Frjáls óháður ritstjóri, Össur Skarphéðinsson, skrifar um ráðningu Friðriks í laugardagsblað DV. Er Össuri þar mikið niðri fyrir, þó hann reyni að hafa greinina í hæðnistóni. Grein Össurar gengur út á að augljóst sé að forstjóri Landsvirkjunar eigi að vera verkfræðingur en ekki lögfræðingur. Segir Össur meðal annars: „Nú geta þrætubókarmenn út af fyrir sig fært að því rök að það sé best að verkfræðingur stýri stofnun sem vinnur að verkfræðilegum framkvæmdum eins og Landsvirkjun. Með sama hætti geta innanbúðarmenn bent á að gott gengi Landsvirkjunar sýni að þeir hafi innt gott starf af höndum sem best yrði fram haldið ef einhver þeirra héldi um stjórnvölinn áfram.“
Einhver myndi kannske telja að rétt væri að gera kröfu um að menn þurfi að mennta sig sérstaklega til hvers starfs um sig, sérstaklega þegar litið er til þess að Össur Skarphéðinsson stjórnmálamaður og óháður ritstjóri er hvorki stjórnmálafræðingur né fjölmiðlafræðingur. En á móti slíkum kenningum má hins vegar hafa þá staðreynd, að núverandi forstjóri Landsvirkjunar, Halldór Jónatansson, er alls ekki verkfræðingur. Hann er lögfræðingur.